141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

skipulögð glæpastarfsemi og staða lögreglunnar.

[11:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa borist fréttir af því að skipulögð brotastarfsemi hafi farið vaxandi hérlendis og að lögreglan standi frammi fyrir nýjum veruleika sem einkennist af meira ofbeldi og hörku en áður. Það er skemmst að minnast aðgerða lögreglunnar gegn meðlimum vélhjólagengis í byrjun október en tilefni aðgerðanna var rökstuddur grunur um að félagar í vélhjólagengi áformuðu hefndaraðgerðir gegn einstökum lögreglumönnum og jafnvel fjölskyldum þeirra.

Almennt telur lögreglan að hún þurfi víðtækari rannsóknarheimildir enda sé Ísland veikur hlekkur í samstarfi Norðurlandaþjóða gegn skipulagðri brotastarfsemi. Krafan er að sjálfsögðu eðlileg þegar óskað er eftir því að lögregla búi hér við sömu skilyrði og lögreglan í nágrannalöndunum. Það er einnig mat þeirra sem ég hef rætt við að glæpastarfsemin sé miklu víðtækari en að hún sé bundin við einhver vélhjólagengi, erlendar mafíur horfi einnig til landsins og þá sérstaklega frá gömlu austantjaldsríkjunum.

Í tengslum við fréttaflutning í því tiltekna máli sem ég fór yfir kom fram sú alvarlega staða sem lögreglumenn og fjölskyldur þeirra geta verið í vegna ósvífinna glæpamanna. Það er slæmt til þess að vita að þess séu dæmi að fjölskyldur lögreglumanna séu fluttar brott af heimilum sínum í öryggisskyni.

Einhverjar fjárveitingar hafa verið á suðvesturhornið til að bregðast við þessu sérstaklega. Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann lögregluna í stakk búna til að bregðast við slíkum aðstæðum? Hvernig eru lögregluembættin úti á landi í stakk búin til að bregðast við því?

Okkur ber sem þjóð að standa vörð um starfsemi lögreglu og öryggi lögreglumanna. Ef þess verður ekki gætt er þess ekki langt að bíða að erfitt verði að manna stöður innan lögreglunnar einfaldlega vegna þess að ungt fólk fæst ekki til þessara mikilvægu starfa.

Við getum öll sett okkur í þau spor, mörgum þingmönnum var nóg um þegar óeirðirnar voru á Austurvelli og aðgerðirnar beindust að okkur og starfsumhverfi okkar, en þá brást lögreglan ekki heldur stóð sína plikt með prýði, sama hvað á dundi. Reyndar er ógleymanleg og niðurlægjandi framkoma sumra þingmanna gagnvart lögreglunni af því tilefni.

Það verður að bregðast við þeim veruleika sem herjar á löggæslu okkar. Ástandið er orðið óþolandi víða um land.

Tryggja verður öryggi borgaranna og það er á ábyrgð Alþingis að svo verði gert. Ef eitthvað kemur upp á sem er gagnrýnisvert er viðbúið að margir muni gagnrýna lögregluna. En við skulum líta í eigin barm. Við skulum átta okkur á því að við höfum áhrif á aðstæður.

Af því tilefni vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi kynnt sér skýrslu 22. júlí nefndarinnar í Noregi þar sem margar alvarlegar athugasemdir komu fram til dæmis er varðar viðbrögð lögreglu, tækjabúnað og stjórnun. Ef hæstv. ráðherra hefur gert það, hyggur hann á einhverjar breytingar vegna reynslu Norðmanna og niðurstöðu skýrslunnar? Ríkislögreglustjóri hefur bent á skýrsluna og komið fram með ábendingar varðandi hana.

Nýverið heimsótti ríkislögreglustjóri öll lögregluumdæmi landsins og hélt fundi með þar þar sem rætt var um stöðu mála og upplifun lögreglumanna. Þar kom fram að lögreglumenn, sérstaklega úti um land, hafa miklar áhyggjur af því hversu ástandið slæmt er og í raun algjörlega óásættanlegt. Lögreglunni sé ekki lengur kleift að leysa þau verkefni sem henni ber vegna takmarkaðra fjárveitinga og fækkunar lögreglumanna. Það er nauðsynlegt að heyra viðbrögð hæstv. ráðherra við þeirri gagnrýni.

Ég spyr: Stendur til á næstu missirum að auka valdheimildir umfram það sem hæstv. ráðherra hefur lagt til og hefur verið gagnrýnt? Er fjölgun lögreglumanna í landinu í farvatninu?

Ríkislögreglustjóri hefur gert tillögur um að fjölga upp í 900 lögreglumenn, en þeir voru um 700 árið 2008 og hefur fækkað síðan þá um 80. Einnig hefur komið fram mikil gagnrýni á skort á búnaði og þjálfun lögreglumanna. Það þekki ég af eigin raun hversu mikilvæg þjálfun getur verið þegar kemur að öryggisstörfum. Reyndar er sagt að algjört skilningsleysi ríki gagnvart búnaðar- og þjálfunarmálum lögreglunnar. Þrátt fyrir að okkur sé öllum ljóst að spara þarf í ríkisrekstri og við berum ábyrgð á því sem fjárveitingavald þá berum við einnig ábyrgð á því að tryggja réttaröryggi borgaranna, öryggi almennings og ríkisins.

Það erum við sem ákveðum hvert öryggisstigið í landinu á að vera og þegar kemur að því að ákveða fjárveitingar til lögreglunnar er það forgangsröðunin í þinginu sem gildir.

Virðulegi forseti. Við skulum ekki (Forseti hringir.) skapa þær aðstæður við löggæslu í landinu að einhverjir segi: Ekki benda á mig.