141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að við hv. þingmenn sem ekki eigum sæti í fjárlaganefnd höfum verið settir í fremur erfiða stöðu. Það er löng hefð og venja fyrir því að fjárlaganefndin sendi frumvörp, bæði til fjárlaga og fjáraukalaga, til Ríkisendurskoðunar sem er sú stofnun sem Alþingi treystir á til að gefa sér hlutlaust mat og það er grundvöllur fyrir því að við getum átt umræðu í salnum. Meiri hluti nefndarinnar hefur sett okkur í furðulega stöðu, okkur vantar þetta mikilvæga gagn.

Það þarf ekki að grafa djúpt í gagnabrunna og gömul dagblöð til að finna hástemmdar yfirlýsingar margra stjórnarliða, hv. þingmanna, um mikilvægi breyttra vinnubragða, vandaðrar stjórnsýslu og þess að við á Alþingi vöndum okkur í störfum okkar. Ég ætla að hlífa stjórnarliðum við því að rifja upp þeirra eigin ummæli í þá veru.

Virðulegi forseti. Engar haldbærar skýringar hafa komið fram á því hvers vegna meiri hluti fjárlaganefndar tók þá ákvörðun að leita ekki eftir umsögn Ríkisendurskoðunar. Ég spurði hv. þm. Björn Val Gíslason, formann nefndarinnar, hverju þetta sætti og ekkert svar kom. Ég gerði mér grein fyrir því að sú ákvörðun var tekin af hálfu nefndarinnar en hvers vegna meiri hluti hennar ákvað, í augljósri andstöðu við minni hlutann, að hafa þetta verklag og þetta ráðslag er óútskýrt.

Við erum nú við 3. umr. í þessu máli og gögnin hafa ekki borist. Það er óásættanlegt að við eigum síðan að ganga til atkvæðagreiðslu um þetta mál án þess að þau liggi fyrir. Ég hef tekið eftir því að margir stjórnarliðar kjósa að taka ekki þátt í þessum umræðum og kjósa að sitja ekki einu sinni í þingsalnum af því að auðvitað hlýtur það að vera svo að í því liði öllu saman fyrirfinnist hv. þingmenn sem eru ósáttir við vinnubrögðin. Ég trúi ekki öðru en að til dæmis hv. þm. Lúðvík Geirsson sé í hópi þeirra sem eru ósáttir og óánægðir með þetta ráðslag.

Það eru álitamál hvað varðar fjáraukalögin, t.d. sem snúa að Íbúðalánasjóði. Við þekkjum hvernig var staðið að færslu fjármuna sem þurfti að greiða vegna yfirtökunnar á Sparisjóði Keflavíkur inn á reikninga ríkisins. Staða Íbúðalánasjóðs er um margt sambærileg hvað varðar aðferðafræðina. Það hefði verið mjög til gagns að fá afstöðu Ríkisendurskoðunar til þess álitamáls. Það hefði gert það að verkum að við hefðum getað rætt málið í þingsalnum með gögnin í höndunum. Hvers vegna í ósköpunum ákvað meiri hluti nefndarinnar að kalla ekki eftir þessu áliti? Það er óskýrt og óþolandi.

Virðulegi forseti. Minni hlutinn í nefndinni kallaði einnig eftir gögnum um hvaða beiðnir hefðu komið frá ráðuneytunum um framlög í fjáraukalögunum. Af hverju er sú beiðni mikilvæg? Hvers vegna skiptir máli fyrir stjórnarandstöðuna að sjá þetta? Jú, þetta skiptir máli vegna þess að þá er hægt að leggja mat á hvaða kostnað ráðuneytin sjálf telja að sé til fallinn og verði að bregðast við með framlögum á fjáraukalögum. Sem sagt mat stofnananna, mat ráðuneytanna.

Það er algerlega eðlilegt að minni hluti nefndarinnar fái slík gögn í hendurnar þannig að síðan sé hægt að leggja mat á afgreiðslu meiri hlutans á beiðnunum. Með öðrum orðum er spurningin þessi: Endurspeglar niðurstaðan í fjáraukalögum raunverulega þörf eins og hún birtist frá ráðuneytunum sjálfum? Er það svo? Með því að meiri hluti nefndarinnar hafnar því að minni hlutinn fái að sjá gögnin stuðlar hann að því að erfiðara er fyrir okkur þingmennina að taka afstöðu til þessara mála. Við getum ekki lagt sjálfstætt mat á hvort verið sé að bregðast við með réttum hætti með þeim ákvörðunum sem liggja fyrir í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Það er hlutverk okkar sem erum hér að taka afstöðu til þess og tryggja að sú afstaða sé tekin á grundvelli haldbærra upplýsinga. Hvernig hefur hv. formaður fjárlaganefndar varið það og útskýrt að slík gögn hafi ekki verið lögð fram? Af því að gögnin eru sannarlega til. Hvernig stendur á því? Hefur komið svar frá hv. formanni nefndarinnar? Nei, það hefur ekkert svar komið. Því er ekki svarað hvers vegna þau gögn hafa ekki verið afhent. Þetta er óskiljanlegt og óásættanlegt.

Það má velta því upp hvort áhugaleysi hv. þingmanna á því að taka þátt í umræðunni eigi sér nokkuð skýringu í því að eiginlega er ekki hægt að ætlast til þess að menn standi hér og ræði þessi mál án þess að hafa gögnin í höndunum.

Enn og aftur: Hv. þingmenn stjórnarliðsins, sem margir hverjir hafa talað um mikilvægi þess að breyta stjórnsýslunni, breyta vinnulagi á Alþingi, tryggja gagnsæi og tryggja að umræðan sé bæði yfirveguð, skynsamleg og upplýst, hvar eru þeir í dag? Af hverju koma þeir ekki hingað og taka þátt í umræðunni með okkur og krefjast þess að upplýsingar sem búið er að biðja um, sem eru sannarlega til og skipta máli séu birtar? Svo að hægt sé að fara í gegnum umræðu um fjáraukalög, ein af mikilvægustu lögum sem Alþingi setur á hverju ári, með slíkar upplýsingar í höndunum. Það er algerlega furðulegt að við skulum ekki fá þetta í hendurnar og það skuli ekki í það minnsta fylgja einhverjar skýringar frá stjórnarliðinu hvers vegna svo er í pottinn búið. Einhverjar haldbærar skýringar aðrar heldur en þögnin ein.

Virðulegi forseti. Þessi staða er uppi og sorglegt að svo sé. Því miður er komið svo að þessi umræða fer að klárast og útséð um það að gögnin berist (Gripið fram í.) þannig að hægt sé að taka afstöðu til þeirra.