141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

endurskipulagning á lífeyrissjóðakerfinu.

40. mál
[17:40]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um endurskipulagningu á lífeyrissjóðakerfinu.

Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að bregðast við upplýsingum um 480 milljarða tap lífeyrissjóðanna, það tap var til í bankahruninu 2008, með því að skipa nefnd sem vinni að endurskipulagningu og yfirferð lífeyrissjóðakerfisins á þann veg að jafnvægi náist milli lífeyrissjóðanna og almannatryggingakerfisins, eða jafnvel að þetta kerfi verði í meira mæli í átt að því að auka vægi gegnumstreymiskerfisins á kostnað almannatryggingakerfisins.

Ástæðan fyrir því að lögð er til ákveðin breyting á lífeyrissjóðakerfinu er tvíþætt. Í fyrsta lagi hefur fjármálakreppan varpað ljósi á mikilvægi þess að hafa blandað kerfi sjóðsmyndunar- og gegnumstreymiskerfis. Sjóðsmyndunarkerfið vísar til lífeyrissjóðakerfisins, en gegnumstreymiskerfið til almannatryggingakerfisins. Ástæðan fyrir því að það þykir betra í ljósi reynslu okkar af fjármálakreppunni að hafa meira jafnvægi á milli þessara tveggja kerfa er sú að lífeyrir getur tapast og rýrnað. Hér á landi er kerfið þannig uppbyggt að lífeyrissjóðakerfið hefur mun meira vægi en almannatryggingakerfið og um 60% af lífeyrisgreiðslum koma úr lífeyrissjóðakerfinu sem er mun hærra hlutfall en gerist í nágrannalöndunum.

Hin ástæðan fyrir því að hér er lögð til ákveðin breyting á lífeyriskerfi landsmanna er sú að það er stefna Samstöðu, flokks lýðræðis og velferðar, að auka vægi gegnumstreymiskerfisins í lífeyriskerfi okkar landsmanna og tryggja með þeirri breytingu að fólk fái, óháð því hvaða laun það hafði yfir starfsævina, viðunandi lífeyri auk þess sem það geti þá lagt í lífeyrissjóði og safnað upp viðbótarlífeyri.

Samkvæmt nýlegri skýrslu úttektarnefndar lífeyrissjóðanna töpuðu lífeyrissjóðirnir, eins og áður segir, um 480 milljörðum frá því fyrir bankahrun og þar til eftir bankahrun. Þetta eru, herra forseti, 12 ára iðgjaldagreiðslur launafólks. Það er mikið tap fyrir fólk sem hefur verið að borga af launum sínum í 12 ár í þessa sjóði að sjá á eftir þeim peningum fuðra upp. Líkur eru til þess að þetta tap muni aukast þegar lífeyrissjóðirnir þurfa að leiðrétta virði eigna sinna við sölu þeirra og líka þegar ljóst verður hvað verður um Íbúðalánasjóð nú þegar hann á í fjárhagserfiðleikum.

Tap lífeyrissjóðanna varpar ljósi á ókosti þess að byggja upp lífeyriskerfi þar sem lífeyrissjóðir leika aðalhlutverkið og sjá um samtrygginguna ásamt því að ávaxta viðbótarlífeyri á markaðsforsendum í mjög óstöðugu hagkerfi. Því var þannig farið fram að hruni að margir voru þeirrar skoðunar að við byggjum við besta lífeyriskerfi í heimi, en eftir hrun kom brot í þá mynd þegar í ljós kom að lífeyrissjóðirnir töpuðu miklu í hruninu og stóðu í vegi fyrir sanngjarnri kröfu almennings um að þeir tækju á sig hluta verðbólguskotsins sem fylgir alltaf í kjölfar bankahruns.

Vörnin sem verðtryggingin hefur veitt sjóðunum eftir hrun hefur ekki dugað til að tryggja 3,5% raunávöxtun frá 2007, ekki heldur til að mæta að fullu tapinu sem varð í hruninu, þannig að sjóðirnir á hinum almenna vinnumarkaði hafa þurft að skerða réttindi um sem nemur 130 milljörðum.

Í dag er staðan þannig að lífeyrissjóðakerfið okkar stefnir að óbreyttu í þrot þar sem eignir sjóðanna munu ekki duga til að greiða lífeyri sem sjóðfélögum hefur verið lofað. Það er ástæða þess að Fjármálaeftirlitið lagði til í júlí á þessu ári að iðgjöld yrðu hækkuð í lífeyrissjóðina, úr 12% í 15,5% á hinum almenna vinnumarkaði og úr 15,5% í 20% á hinum opinbera vinnumarkaði. Þetta var ekki það eina sem Fjármálaeftirlitið lagði til. Fjármálaeftirlitið lagði líka til að réttindi yrðu skert enn frekar og að lífeyrisaldur yrði hækkaður, en við búum í dag við einn hæsta lífeyrisaldur í Evrópu.

Í raun er Fjármálaeftirlitið að leggja til að við herðum kapphlaupið við að safna í lífeyrissjóði með því að greiða hærra iðgjald í lengri tíma og sættum okkur við lakari réttindi, þ.e. sú kynslóð sem nú er á vinnumarkaði. Þessi tillaga Fjármálaeftirlitsins ætti að fá marga til að velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að staldra við og kanna hvort við séum á réttri braut.

Fjármálakreppan hefur afhjúpað veikleika lífeyrissjóðakerfis eða sjóðsmyndunarkerfis, en það kerfi byggir á þeirri forsendu að ávöxtun á fjármálamarkaði sé alltaf meiri en hagvöxtur eða aukning raunlauna og að þessi mikla ávöxtun náist vegna þess að sjóðirnir gera aldrei mistök í fjárfestingum, þeir hafa sem sagt fullkomnar upplýsingar. Jafnframt gera sjóðfélagarnir aldrei mistök þegar þeir velja sér sjóði. Með öðrum orðum að við búum við fullkominn markað þar sem allir aðilar haga sér rökrétt og hafa upplýsingar sem geri þeim kleift að sjá allt fyrir. En auðvitað er því ekki þannig farið í raunveruleikanum. Það kom berlega í ljós í þeirri kreppu sem ekki bara við höfum verið að fara í gegnum frá 2008, heldur allur hinn vestræni heimur.

Fjármálakreppan afhjúpaði þá staðreynd að ávöxtun á fjármálamörkuðum getur jafnvel verið neikvæð í einhvern tíma eða minni en hagvöxtur. Auk þess afhjúpaði fjármálakreppan goðsögnina um yfirburði lífeyrissjóðakerfisins samanborið við almannatryggingakerfið, eða gegnumstreymiskerfið, við að takast á við fjölgun lífeyrisþega.

Mikil eignaverðslækkun hefur nefnilega orðið frá 2008 og margir álíta nú að það sama muni gerast þegar digrir lífeyrissjóðir þurfa að hefja sölu á hluta eigna sinna til að fjármagna lífeyrisgreiðslur. Ef eignaverð lækkar við sölu eigna lífeyrissjóðanna munu fjármagnstekjur skattgreiðenda lækka. Vinnandi kynslóðir munu þá þurfa að taka á sig auknar byrðar vegna fjölgunar lífeyrisþega í gegnum lægri fjármagnstekjur. Það sama gerist í gegnumstreymiskerfinu, nema þá þarf að hækka skatta til að mæta fjölgun lífeyrisþega. Þannig að það skiptir í raun ekki máli í hvoru kerfinu þú ert þegar öldrunarvandamálið fer að tikka inn, vegna þess að það eru alltaf vinnandi kynslóðir sem þurfa að taka á sig auknar byrðar til þess að mæta því vandamáli.

Við vitum sem sagt að eignir lífeyrissjóðanna geta bæði rýrnað og tapast. Það kom berlega í ljós núna eftir 2008. Auk þess hafa hagfræðingar alltaf vitað að lífeyrissjóðakerfi tryggi hvorki jöfnuð né lífeyri sem dugar til framfærslu fyrir hvern og einn. Ástæðan er sú að réttindi fara eftir launum viðkomandi yfir alla starfsævina. Ef fólk hefur verið á mjög lágum launum og borgað iðgjöld af mjög lágum launum eru allar líkur á því að lífeyrir sem viðkomandi fær muni ekki duga til framfærslu og líka ef lífeyrissjóðurinn verður fyrir áföllum og ávöxtun verður mjög lítil og eignir tapast, eru litlar líkur á að lífeyririnn sem verið er að greiða til hvers og eins dugi til framfærslu.

Við vitum jafnframt að uppbygging lífeyrissjóðakerfis leggur mjög þungar byrðar á kynslóðirnar sem byggja þá upp, byggja sjóðina upp. Þær kynslóðir þurfa að greiða skatta til að fjármagna lífeyri eldri kynslóða sem ekki eiga rétt á lífeyri, vegna þess að lífeyrissjóðakerfið var ekki byrjað að greiða í lífeyrissjóði þegar þessar kynslóðir voru á vinnumarkaði. Þær kynslóðir sem byggja upp lífeyrissjóðakerfið borga skatta til að tryggja eldri kynslóðum lífeyri í gegnum almannatryggingakerfið og þær eru líka að greiða iðgjöld til þess að byggja upp sinn eigin lífeyri. Þannig að það er í raun og veru tvöföld skattlagning á kynslóðina sem byggja á upp lífeyrissjóðakerfið.

Viðvarandi halli er núna á lífeyrissjóðakerfinu okkar. Samkvæmt úttekt Fjármálaeftirlitsins vantar um 670 milljarða inn í kerfið til að það geti staðið við núverandi skuldbindingar. Það má því segja að vinnandi kynslóðir í dag séu að gefa eftir réttindi sín í framtíðinni á meðan ekki er verið að taka á þeim halla. Það sem í raun er verið að gera er að það er verið að borga þeim sem hafa hafið töku lífeyris hærri lífeyri en það fólk ætti að fá, sem þýðir með öðrum orðum að kynslóðirnar sem greiða inn í lífeyrissjóðakerfið munu í framtíðinni fá minni lífeyri vegna þess að sjóðirnir geta ekki staðið við skuldbindingar sem þeir hafa gefið þeim kynslóðum.

Á Íslandi hefur átt sér stað óvenjuhröð uppbygging lífeyrissjóðakerfisins. Eignir lífeyrissjóðanna eru nú tæp 140% af stærð hagkerfisins. Þessi mikla sjóðssöfnun er hvergi jafnmikil, nema í Hollandi. Eftir bankahrun hafa lífeyrissjóðirnir lokast inni hér á landi eins og flestir landsmenn. Þeir hafa fengið á hverju ári um 120 milljarða inn í iðgjaldagreiðslur sem þeir þurfa að finna ný fjárfestingatækifæri fyrir. Þau fjárfestingatækifæri hafa verið af skornum skammti, m.a. vegna þess að fyrirtæki hafa verið of skuldsett til að fara út í fjárfestingar og ríkið hefur verið að skera niður. Ríkið hefur ekki skorið mjög hratt niður og frá hruni hefur verið viðvarandi hallarekstur sem lífeyrissjóðirnir hafa meðal annars fjármagnað. Í dag er staðan sú að helmingur af eignum lífeyrissjóðanna er í verðbréfum sem ríki og sveitarfélög hafa gefið út. Það verður því mjög erfitt fyrir lífeyrissjóðina að finna örugg langtímafjárfestingatækifæri þegar búið er að skera niður halla ríkissjóðs og þrýstingurinn á stjórnvöld að afnema gjaldeyrishöftin á útstreymi lífeyrissjóðanna mun aukast verulega.

Annað sem ég vil nefna varðandi ókosti þess að hafa svona stórt lífeyrissjóðakerfi er að allur sparnaður landsmanna hefur fram til þessa farið beint inn í lífeyrissjóðakerfið og það hefur þýtt að mjög lítið framboð er af áhættufjármagni hérna, sparnaði sem hægt hefði verið að nota til að fjármagna áhættusamar fjárfestingar eins og nýsköpunarstarfsemi og (Forseti hringir.) uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra.

Herra forseti. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að gera breytingar á lífeyrissjóðakerfinu. Það er ósk mín að þessi þingsályktunartillaga fari til vinnslu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og að nefndin taki (Forseti hringir.) jákvætt í þá tillögu að auka vægi gegnumstreymiskerfisins.