143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að rifja aðeins upp söguna og sérstaklega fyrir hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni.

Á síðasta kjörtímabili var lögum breytt og ákveðið að framlengja starfsemi fjarskiptasjóðs vegna þess að þörfin blasti við öllum mönnum. Sennilega hafa þau lög verið samþykkt hér í samkomulagi. Jafnframt var og um leið ákveðið að fjarskiptasjóður fengi tekjur af útboði fjarskiptarása til að sinna hlutverki sínu. Það er alveg ljóst að þar er mikið verk að vinna og ég spyr mig: Hvers konar skilaboð eru það, til dæmis til sveitarstjórnarmanna sem við þingmenn hittum í haust, þar sem á nánast hverjum einasta fundi komu upp vandamálin sem eru við ónógt fjarskiptasamband víða í dreifðum byggðum landsins, að taka þessar mörkuðu tekjur af fjarskiptasjóði?

Almenn stefnubreyting einhvern tíma inn í framtíðina um meðferð markaðra tekna er allt annað mál. Hér eru tekjur sem falla til innan sviðsins, innan fjarskiptasviðsins, og var ákveðið á Alþingi á síðasta kjörtímabili að eyrnamerkja fjarskiptasjóði. (Gripið fram í: Ómálefnalegt.) Það er nákvæmlega svona sem þetta er. Þetta eru staðreyndir málsins, hv. frammíkallandi.