143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:01]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé algerlega fordæmalaust að ráðuneytið sé látið taka svona niðurstöðu inn í sinn rekstur. Ég velti því þá fyrir mér hvort hv. fjárlaganefnd þurfi ekki að setja einhverjar almennar reglur og almenn viðmið vegna þess að út um allt í okkar stofnunum lenda þær í dómsmálum og hafa stundum rangt fyrir sér fyrir dómi og þurfa að greiða bætur. Við erum með mörg nýleg dæmi, m.a. vegna gangagerða og fleira slíkt. Þess vegna tel ég eðlilegast, heiðarlegast og gagnsæjast, ef menn eru að fara að taka upp svona vinnubrögð og viðbrögð við svona vondum og leiðinlegum málum — og í raun og veru hafði ráðuneytið ekki mikið um þetta að segja — að fjárlaganefnd geri að minnsta kosti grein fyrir því hvernig hún ætli að taka á svona málum og sambærilegum málum til framtíðar litið þannig að menn hafi þá vitneskju um það fyrir fram.