144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er rétt að hafa áhyggjur af ört fjölgandi merkjum um aukin skattsvik á Íslandi. Hægt er að nefna að 1% bætt innheimtuhlutfall tollstjórans þýðir 5 milljarða kr. í ríkissjóð. Það er sérstaklega ein stétt eða atvinnugrein sem legið hefur undir ámæli um að þar séu skattsvik ráðandi, það er ferðaþjónustan. Í fyrra var gefin út skýrsla af Rannsóknarstofnun atvinnulífsins á Bifröst. Þar kemur fram að forsvarsmenn 65% fyrirtækja innan ferðaþjónustunnar telja að skattsvik skekki samkeppni í þeim greinum ferðaþjónustu sem fyrirtæki þeirra starfa í. Talið er samkvæmt sömu skýrslu að 13% gistingar hafi farið fram hjá skatti árið 2013 og að það hlutfall hafi aukist úr 8% árið 2011.

Þess má líka geta að talið er að óskráð herbergi og fasteignir sem boðnar eru til leigu í Reykjavík séu jafn margar og öll hótelherbergi í Reykjavík. Þessar eignir eru leigðar út án leyfa og er næsta víst að þeir sem þær leigja út skila ekki skatti.

Svo aftur sé vísað til skýrslunnar sem Rannsóknarstofnun atvinnulífsins gaf út þá kemur þar fram að þeir sem hafa leyfi og starfa samkvæmt leyfum eru mun líklegri til þess að standa skil á sköttum og öfugt. Það er því ljóst að auka þarf mannafla skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra og tollstjóra, því að það er næsta víst að ef það verður gert munu þær mannaráðningar borga sig margfalt fyrir ríkissjóð.