144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil koma því að hér í tilefni af þessari ræðu að það er meginatriði þessa máls að styrkja fjárhagslegt sjálfstæði Seðlabankans og koma á mun skýrari reglum en gilt hafa fram til þessa hvað varðar eigið fé bankans og fjárhagsleg samskipti hans við ríkissjóð. Það er algert grundvallaratriði.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að ein af afleiðingum þess að þessar reglur eru settar hér fram verður færsla á 26 milljörðum til ríkissjóðs sem mun tekjufærast upp á um það bil 21 milljarð sem er reyndar minni hlutinn af heildarafgangi fjáraukalaganna. Án þessarar millifærslu yrði afkoma ríkissjóðs engu að síður 20 milljörðum meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum, þ.e. rétt rúmlega. Það er í sjálfu sér aukaatriði og alveg rétt að þetta eru einskiptistekjur. Ég hef ávallt haldið því til haga í umræðunni um afkomu ríkissjóðs að gera þarf skýran greinarmun á einskiptistekjum og öðrum skatttekjum.

Það ánægjulega í þeirri þróun sem við sjáum í álagningu á lögaðila og reyndar líka einstaklinga og í tryggingagjaldi og öðrum tekjustofnum ríkisins er að þessir skattstofnar eru sem betur fer að taka við sér. Verkefni okkar á næstu árum verður þá að finna leið til að ráðstafa því svigrúmi með sem allra hagkvæmustum hætti.

Ein afleiðing þess að við fáum þessa tekjufærslu í tengslum við þetta mál, sem er ekki aðalatriði málsins heldur efnisatriði frumvarpsins, er a.m.k. sú að skuldir ríkissjóðs lækka nokkuð og vaxtabyrði líka.