144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[17:35]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég held að það séu ekki alveg skýrar línur í því hvað sé hátt eða lágt eiginfjárhlutfall fyrir seðlabanka. Eins og ég benti á er eiginfjárhlutfallið bullandi neikvætt í Síle og Ísrael og það er örlítið í Kanada 2%, 1% jafnvel. Svo er það hátt í Svíþjóð og Noregi, en hjá okkur er það á svipuðu róli og á Nýja-Sjálandi, í Finnlandi, Singapúr, Danmörku og alls konar ríkjum.

Ég held þetta sé ekki svo afdrifarík stærð. Það sem skiptir miklu meira máli er að jafnvægi sé í rekstri Seðlabankans, að hann sé ekki að framleiða of mikið af peningum sem skapi verðbólgu. Aðalatriðið í starfi hans er að vinna, með einhverjum aðgerðum, að markmiðum sínum, sem eru bæði fjármálastöðugleiki og stöðugt verðlag og hugsanlega gengisstöðugleiki líka. Til þess hefur hann mikil og skilvirk tæki ef hann vill beita þeim.

Seðlabankinn er í gríðarlega sterkri stöðu, með sínum aðgerðum, til að stýra því hvert eigið fé hans raunverulega er. Hann er í annarri stöðu en til dæmis viðskiptabankar eða fyrirtæki sem ekki hafa það vald og það mikla umboð.