145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

umræður um hryðjuverkin í París.

[13:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það var óskemmtilegt símtal að taka um miðja nótt í fjarlægri heimsálfu og vera tjáð að París sætti árásum hryðjuverkamanna. Á þeim tíma var talað um að 18 manns hefðu fallið en fljótlega varð þó ljóst að sú tala fór ört hækkandi. 129 manns létu lífið og nærri 360 særðust, þar af að minnsta kosti 80 alvarlega. Margir eru enn á gjörgæslu. Engir Íslendingar voru meðal fórnarlambanna en undanfarna daga höfum við heyrt reynslusögur margra samlanda okkar sem vöndu komu sínar á kaffihúsin sem urðu vettvangur skotárása eða voru á leik Frakklands og Þýskalands á Stade de France eða sækja að jafnaði tónleikastaðinn Bataclan. Með öðrum orðum: Það var hending ein að Íslendingur varð ekki á vegi hryðjuverkamannanna í París föstudaginn 13. nóvember síðastliðinn. Fyrir það erum við að sjálfsögðu þakklát en finnum til með þeim fjölmörgu sem eiga um sárt að binda.

Ég vil nota tækifærið hér og árétta samúðarkveðjur íslenskra stjórnvalda og samstöðu með frönsku þjóðinni á þessum erfiðu tímum.

Það er ekki bara í Evrópu sem samtökin sem kenna sig við ríki íslams láta til skarar skríða. Fyrir skemmstu létust um 40 manns í sjálfsmorðssprengingum í Beirút, höfuðborg Líbanons. Samtökin hafa sömuleiðis lýst yfir ábyrgð á sprengingu sem grandaði farþegaþotu með rússneskum ferðamönnum innanborðs og ekki er langt síðan ISIS breytti baðströnd á vinsælum ferðamannastað í Túnis í blóðugan vígvöll.

Við minnumst fórnarlamba þessara árása líka og þeirra fjölmörgu sem falla fyrir hendi þessara ógeðfelldu hryðjuverkasamtaka í Írak og Sýrlandi, samtaka sem kenna sig við íslamskt ríki en eiga þó ekkert skylt við þá fornu trú, gildi hennar og friðsamlegan boðskap.

Virðulegi forseti. Hryðjuverkin í París voru ekki aðeins árás á þá sem þar búa. Þau voru einnig tilræði við þjóðfélagsgerð okkar og lífsgæði. Takmark hryðjuverkamannanna var ekki síst að sá fræjum óttans og storka þeim þjóðfélagsgildum sem við trúum á og viljum standa fyrir; frelsi, lýðræði, umburðarlyndi og jöfn réttindi einstaklinga óháð trú, kyni, kynferði eða tónlistarsmekk.

Hryðjuverkamennirnir eru að vonast til þess að hafa áhrif á og breyta þessum grunngildum þjóðfélags okkar. Því er mikilvægara en nokkru sinni að halda þeim á lofti, skríða ekki inn í skelina heldur fagna frelsinu, frelsinu sem svo margir flóttamenn sem við viljum gjarnan styðja eru að leita að.

Það er engu að síður svo að atburðir sem þessir hafa mikil áhrif til skemmri og lengri tíma á samfélög okkar. Frakkar hafa lýst því yfir að þeir eigi í stríði, þeir óski eftir stuðningi og aðstoð annarra ríkja Evrópusambandsins samkvæmt gr. 42-7 í sáttmála Evrópusambandsins og hafa lýst yfir því að aukið verði við mannafla í öryggis- og varnarmálum. Í morgun funduðu varnarmálaráðherrar Evrópusambandsins um virkjun þessarar greinar sem er einsdæmi í sögu sambandsins og var orðið við beiðni Frakka.

Þá hafa vinir okkar og frændur í Noregi unnið vel úr áföllunum í Útey árið 2012 en engu að síður breyttist viðhorf Norðmanna til öryggismála og löggæslu, eðlilega.

Við verðum líka að geta rætt þessi mál af yfirvegun og velt fyrir okkur hvort nóg sé að gert í öryggismálum þjóðarinnar, hvort löggæsluyfirvöld hér á landi hafi nægileg úrræði, fjármuni og valdheimildir til að mæta vaxandi ógn af hryðjuverkum. Sú umræða verður þó alltaf að gæta þess að jafnvægi haldist milli þess frelsis sem er í samfélagi okkar og öryggis sem við viljum búa við. Við verðum að geta tekið það samtal og rætt öryggis- og varnarmál á styrkum og málefnalegum grunni.

Það fer vel á því að síðar í dag mun ég mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem ég geri mér vonir um að breið sátt náist um hér í sölum Alþingis.

Hvernig mætum við hryðjuverkaógninni sem alþjóðasamfélag? Hvernig berjumst við gegn öflum sem virða engin siðferðisleg mörk og mannslíf? Við þurfum í senn að glíma við afleiðingarnar og ráðast að rótum vandans og hér hefur Ísland hlutverki og ábyrgð að gegna.

Í fyrsta lagi, og hér hefur Ísland sína rödd, þurfum við að setja aukinn þrýsting á helstu leikendur alþjóðasviðsins, þar með talið öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, um að finna friðsamlega lausn á deilunni í Sýrlandi þar sem helstu vígi ISIS eru og hvaðan milljónir eru á flótta. Í öðru lagi þurfum við að halda áfram að herða starfsemi fjölþjóðabandalagsins gegn ISIS. Ísland er þar í flokki 60 ríkja og leggur til aðgerðir í formi mannúðaraðstoðar og stöðugleikaaðgerða. Þetta eru, nota bene, aðgerðir sem lagðar eru til á grundvelli ályktunar Sameinuðu þjóðanna.

Í þriðja lagi mun Ísland beina hluta af flóttamannastuðningi sínum til þeirra stofnana sem vinna á vettvangi, meðal annars í flóttamannabúðum, og bæta lífskjör þeirra nærri heimahögum. Við munum sömuleiðis taka á móti flóttafólki frá stríðshrjáðum svæðum og gefa því von um betra líf hér heima.

Í fjórða lagi nefni ég þróunarsamvinnu. Stuðningur við Palestínu og Afganistan og önnur stríðshrjáð lönd þar sem auðvelt kann að vera að virkja ungt fólk til ódæðisverka er þýðingarmikill hluti af þróunarsamvinnu Íslands sem og neyðaraðstoð við stríðshrjáð svæði fyrir botni Miðjarðarhafs.

Að síðustu þurfum við að mæta þörfum unga fólksins sem margt hvert upplifir sig utangátta í vestrænu samfélagi og hneigist til ofstækis í vanmætti sínum og vantrú á framtíðarhorfur. Við sem alþjóðasamfélag verðum að kljást við alla þessa þætti. Það þarf heildrænar lausnir til að takast á við jafn erfið úrlausnarefni og þessi.

Virðulegi forseti. Að lokum. Hryðjuverk eru því miður hluti af veruleika okkar í dag. Það er ekki veruleiki til að sættast á heldur takast á við. Sem íslenskt samfélag og hér á Alþingi verðum við að geta rætt ógnina af hryðjuverkum af ábyrgð og skynsemi og í alþjóðastarfi leggja okkar lóð á vogarskálarnar. Þau eru ef til vill ekki þau þyngstu en þau telja.