149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það eru nú fáir ef nokkrir flokkar sem hafa talað jafn mikið fyrir auknu eftirliti með störfum og starfsháttum lögreglu og Píratar. Það er vegna þess að við erum almennt skeptísk á vald. Lögreglan hefur þá sérstöðu að hún má beita líkamlegu valdi í störfum sínum og þarf það vald. Þess vegna er mikilvægt að hafa eftirlit með því.

Í beinu samhengi við það er mjög mikilvægt, reyndar nauðsynlegt, að fjármagna löggæsluna þannig að þar sé ekki mannekla, vegna þess að þegar mannekla er er líklegra að lögreglumenn í ýmsum aðstæðum neyðist til þess að beita úrræðum sem þeir hefðu getað komist hjá ef þeir hefðu verið nógu margir.

Það er lykilatriði, ekki bara fyrir löggæslu gagnvart borgaranum, heldur gagnvart því að starfshættir lögreglu séu í lagi, að löggæsla sé nógu vel fjármögnuð til að ráða allan þann mannskap sem þörf er á. Ég segi já við þessari tillögu.