150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fjórða iðnbyltingin, rafræn stjórnsýsla, fjarvinna og fjarnám gefa okkur frábær verkfæri og tækifæri til að endurskipuleggja margt í samfélaginu. Notum þau tæki rétt svo þau snúist ekki upp í andhverfu sína og snúi hlutunum á hvolf. Við þurfum oft að spyrja okkur hvernig hægt sé að nýta tækifærin sem felast í fjarvinnu til að styrkja starfsemi þar sem ekki er þörf á fjölda fólks í nærþjónustu en nærþjónustan er samt mikilvægt. Þetta verðum við að gera meðvitað. Með meðvitaðri stýringu er hægt að nota rafræna stjórnsýslu og fjarvinnslu til að dreifa störfum um landið, efla starfsstöðvar, efla heilu stofnanirnar og kerfið.

Nokkur dæmi: Á Borgarfirði eystra er ekki þörf fyrir heilt starf hjúkrunarfræðings og starfshlutfall var smátt og smátt skorið niður þar til enginn fékkst til að sinna starfinu. Nú hefur nálguninni verið snúið við. Fullt starf er í boði og hjúkrunarfræðingur sinnir ákveðnum störfum, með aðstoð tækninnar, sem áður var sinnt annars staðar. Um leið og þetta var gert fékkst hæfur einstaklingur til starfa.

Innleiðing rafrænnar stjórnsýslu hjá sýslumönnum verður einnig að efla þjónustu um land allt, líka í Reykjavík. Miðla þarf verkefnum sem ekki krefjast nálægðar við borgarana milli starfsstöðva. Starfseiningar með sérþekkingu á ákveðnum málefnum geta létt á verkefnum á starfsstöðvum þar sem er mikil þörf fyrir þjónustu og afgreiðslu. Rafræna stjórnsýslu þarf að efla.

Fjarnám þarf að styrkja minni skóla, bæði til að sækja fagþekkingu en ekki síður til að tryggja öflugum kennurum minni skóla tækifæri til að vera í fullu starfi og skólakerfinu aðgang að þekkingu. Reiknilíkan menntamálaráðuneytisins þarf að taka tillit til þessa. Það er ekki eðlilegt að það séu fyrst og fremst stærstu framhaldsskólarnir eða símenntunarmiðstöðvarnar sem hafi afl til að þróa fjarnám, þvert á móti. Við verðum að nýta tæknina til að styrkja veiku punktana og efla þannig heildina.