150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Þann 16. október lagði undirritaður fyrirspurn, er varðar ellilífeyri sjómanna, fyrir félags- og barnamálaráðherra, sem ráðherra svaraði í gær. Meðal annars var spurt um það hversu margir sjómenn nýttu sér rétt til töku ellilífeyris á aldrinum 60–67 ára. Í svari ráðherra kom fram að skilyrði fyrir töku ellilífeyris við sextugt væri að viðkomandi hefði stundað sjómennsku í 25 ár eða meira. Það er rétt að taka fram að réttindi í lífeyrissjóðum geta verið með ýmsum hætti. Margir sjómenn eiga því miður ekki alltaf mikil réttindi í lífeyrissjóðum. Ég átti von á því að þessi hópur væri nokkuð stór en í svari ráðherra kom fram að einungis 29 manns fengju lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun. Til þess að geta sótt um lífeyri þarf viðkomandi að leggja fram afrit af skattframtali, tekjuáætlun og yfirlit yfir lögskráða daga á sjó. Samgöngustofa heldur utan um þau gögn en einhver dæmi eru um að kalla þurfi eftir upplýsingum um lögskráningar til þeirra embætta er sáu um lögskráningar fyrir dagar Samgöngustofu.

Hæstv. forseti. Hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða. Sjómannsstarfið er erfitt líkamlega og slítandi. Mikill skilningur er á því að starfsævi sjómanna geti verið styttri en flestra annarra. Miklir hagsmunir liggja í því fyrir sjómenn að þeir nýti sér rétt sinn og hagsmunasamtök og hið opinbera eiga að sjálfsögðu að veita slíkar upplýsingar. Það getur verið erfitt fyrir menn að afla sér gagna og leiðbeininga og þá þurfa þær að vera aðgengilegar. Sjómenn eiga það svo sannarlega skilið.