150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[20:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Þegar þetta frumvarp og þær breytingar sem hér eru lagðar til hafa komið til fullrar innleiðingar verður á núvirði varið rétt um 20 milljörðum kr. á ári til greiðslu fæðingarorlofs. Ég held að við þingmenn verðum að nálgast málið með þeim hætti að ákvörðun eins og þessi, að verja 20 milljörðum til þessa mikilvæga málaflokks, hljóti að vera tekin fyrst og fremst með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Ég gef mér að hæstv. ráðherra, sem fékk þingið til að skeyta viðbótartitli við starfsheiti sitt með því að vera félags- og barnamálaráðherra, hljóti að nálgast málið í heild sinni út frá hagsmunum barna en ekki vinnumarkaðslegum forsendum eða neinu slíku.

Þess vegna held ég að sú viðbót sem hér um ræðir eigi öll að vera óskipt milli foreldra þannig að foreldrar geti stýrt því með hvaða hætti viðbótin er nýtt. Og ég held að við eigum að ganga lengra en það og gera millifæranlega að fullu alla 12 mánuðina sem verða til ráðstöfunar í fæðingarorlofi að frumvarpinu innleiddu að fullu. Það sem vinnst m.a. með því er í fyrsta lagi það augljósa, að hver og ein fjölskylda er auðvitað í miklu betri færum til að skipuleggja hvað henti sér og sínu barni best en við sem sitjum á þingi. Annað sem leysist í leiðinni með því að gera, þegar þar að kemur, 12 mánuðina millifæranlega að fullu eru mál sem er erfitt að eiga við. Börn falla, ef svo má segja, algjörlega milli skips og bryggju hvað varðar þá viðbótarmánuði sem eru bundnir öðru foreldri þegar það er ekki til staðar, hver sem ástæðan kann að vera fyrir því. Þær geta verið margþættar eins og við þekkjum sem hér erum. Með því að gera fæðingarorlofið millifæranlegt að fullu leysum við þau sáru og erfiðu mál öll í einu. Þau hverfa öll.

Það er ekki langt síðan við áttum snarpar umræður um þungunarrof í þessum sal. Þá velktust menn ekkert í vafa um að foreldrar, mæður í flestum tilfellum, tækju ákvarðanir sem væru skynsamlegar fyrir barnið. Ég treysti foreldrum landsins, mæðrum og feðrum, fyllilega til þess að taka skynsamlegar ákvarðanir um það hvernig fæðingarorlofi skuli skipt. Þess vegna tel ég algjörlega nauðsynlegt að velferðarnefnd taki ígrundaða umræðu um hvort eigi að víkja frá þeirri reglu sem viðhöfð hefur verið, og lagt er til að herða á núna, að tilteknir mánuðir séu bundnir föður og móður. Ég held að þegar vikið verður frá þeirri reglu verði mönnum fljótt ljóst að það er ekki bara að fjölskyldum landsins sé treystandi fyrir því að skipuleggja sín mál eins og þeim verður best fyrir komið heldur leysast vandamál sem eru algjörlega óleyst og ekki er tekist á við í þessu frumvarpi, eins og þau dæmi þar sem faðir er ekki til staðar. Við verðum að gera ráð fyrir að móðir sé til staðar hjá nýfæddu barni. Ég legg mikla áherslu á að velferðarnefnd taki ígrundaða umræðu um málið.

Annað atriði sem ég held að væri skynsamlegt að nefndin tæki til ígrundaðrar skoðunar er hvort það sé skynsamlegt að vera með tengingu við laun þeirra sem eru í fæðingarorlofi hverju sinni. Það hefur verið grautað, svo vægt sé til orða tekið, í þessum reglum þannig að á köflum var reglunum breytt tvisvar á ári. Það ætti að vera öllum ljóst að enginn náði raunverulega að fylgjast með því hvernig greiðslurnar voru hverju sinni og það var alveg örugglega ekki hægt að skipuleggja barneignir út frá því. Þann 1. janúar 2009 voru hámarksgreiðslur lækkaðar í 400.000, 1. júlí sama ár voru þær lækkaðar aftur í 350.000 og bætt við prósentutengingum. Ég ætla ekki að þreyta ykkur með hliðarreglunum sem voru settar inn 1. janúar 2010 en þær voru ansi margar. Ég held að það sé til mikils vinnandi að einfalda þetta kerfi, skoða það að innleiða fasta tölu sem myndi hjálpa raunverulega til hjá þeim tekjulægri. Ég held að þeir foreldrar sem hafa rýmri fjárráð eigi auðveldara með að sjá um sig en þeir sem minna hafa á milli handanna. Ég held að það ætti að skoða það af alvöru að gera greiðslurnar að fastri tölu fyrir hvern mánuð en ekki hlutfall af launum. Ég legg það inn í umræðuna.

Í skýrslunni sem samkvæmt greinargerðinni liggur til grundvallar þessu frumvarpi, Framtíðarstefna í fæðingarorlofsmálum: Tillögur starfshóps, sem var skilað til þáverandi velferðarráðherra í mars 2016 er reynt að greina ýmsa þætti sem snúa að fæðingarorlofi. Lögð er áhersla á það sem er aftur nefnt í greinargerð frumvarpsins, að fæðingartíðni, þ.e. lifandi fædd börn á ævi hverrar konu, sé viðmið sem sé mikilvægt að reyna að styðja við, að frjósemi og fólksfjölgunarhlutfall sé sem hæst. Af þeim gögnum sem maður sér annars vegar í þessari skýrslu og hins vegar í frumvarpinu er ekkert sem bendir til þess að hið svokallaða þak á greiðslunum hafi nein merkjanleg áhrif á fæðingartíðni. Tíðnin hefur verið rétt undir tveimur börnum frá árunum 2013 og 2014 en var það sömuleiðis 2001, 2002 og 2003. Síðan er hún á mjög þröngu bili í rétt rúmum tveimur lifandi börnum fæddum á ævi hverrar konu, öll árin þarna á milli. Eins virðist hringlandinn hvað þakið varðar sem ég nefndi áðan ekki hafa nein teljandi áhrif, í raun engin að mér sýnist. Ég held að margra hluta vegna eigi að vera markmið í sjálfu sér að styðja við til þess að gera hátt fæðingarhlutfall. Ég tel að það að nálgast málið með þeim hætti að um verði að ræða fasta tölu í fæðingarorlofi en ekki hlutfall af launum verði til þess að fæðingarhlutfall verði líklegra til að hækka en með núverandi fyrirkomulagi.

Það kom fram í ræðu fyrr í þessari umræðu að afgerandi meiri hluti feðra nýtti heimild sína til töku fæðingarorlofs. Hlutfall þeirra sem það gera hopar hraðar en jöklarnir okkar, það er ljóst. Ef við horfum til ársins 2009 nýttu um 19% feðra ekki sína þrjá mánuði að fullu. Árið 2011 var þetta hlutfall komið upp í 31% og talað um að hlutfallið verði um 40% vegna barna sem voru fædd, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur árið 2014. Í skýrslu starfshóps velferðarráðuneytisins kemur fram, með leyfi forseta:

„Þannig benda tölur Vinnumálastofnunar til þess að umrætt hlutfall feðra komi til með að hækka enn frekar frá því sem var árið 2011.“

Um er að ræða þá feður sem nýta ekki sína þrjá mánuði að fullu. Ekkert bendir til þess að það sé að hægja á þessari þróun eða hún að breytast og ég held að hlutfallstenging tekna sé tilraun sem er ekki víst að nái þeim markmiðum sem ætlunin er að ná.

Ég vil aðeins koma inn á sjónarmið sem sett eru fram í greinargerðinni. Þar er fjallað um samráð í samráðsgátt stjórnvalda. Örstutt vil ég fyrst leyfa mér að skammast aðeins í hæstv. ráðherra. Ég vil halda því til haga að mér finnst ekki boðlegt að samráðsgátt stjórnvalda verði álitin fullnægjandi samráðsvettvangur en ekki það samráð sem á sér stað í nefndum þingsins, í þessu tilfelli velferðarnefnd. Það er ekki boðlegt og ekki hægt annað en að gera athugasemdir við hversu seint þetta mál er komið fram. Ég veit svo sem að ef ætlunin er að klára það verður það gert og örugglega með bærilegum sóma. Það er samt algjör óþarfi að setja málið í þennan þrönga tímaramma. Í 5. kafla greinargerðar er fjallað um samráð og ég vil sérstaklega nefna að þarna eru ein fimm hagsmunasamtök af ýmsum gerðum og síðan eru athugasemdir frá 21 einstaklingi. Í greinargerðinni segir um athugasemdir einstaklinganna, með leyfi forseta:

„Þær athugasemdir sem komu frá einstaklingum lutu einkum að því að lengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs fremur en að lengja rétt hvors foreldris fyrir sig líkt og frumvarpið kveður á um. Voru færð ýmis rök fyrir þeirri tilhögun, þar á meðal að aðstæður fjölskyldna væru mismunandi, svo sem fjárhagslega, að tillaga frumvarpsins um skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra fæli í sér of mikla forræðishyggju ríkisins og að taka yrði tillit til líffræðilegra þátta sem tengjast mæðrum.“

Þetta er það sem ráðherrann sjálfur setur fram sem samantekt á þeim athugasemdum sem 21 einstaklingur gerði í samráðsgátt. Þetta bendir til þess að þeir sem nýta kerfið á forsendum nýfæddra barna, foreldrar barnanna, kalli eftir auknu frelsi. Þeir nálgast málið út frá forsendum barnanna en ekki vinnumarkaðslegum forsendum sem hagsmunasamtökin sem skila inn umsögnum virðast leggja til grundvallar. Þá er bara ágætt ef það kemur fram að ríkisstjórnin ákveði að verja 20 milljörðum til þessa verkefnis á þeim grundvelli að styðja við vinnumarkaðsleg sjónarmið. Þetta hlýtur að snúast um barnið og hagsmuni þess. Annað getur ekki verið. Ef eitthvað annað er uppi er eins gott að þetta frumvarp taki lengri tíma í afgreiðslu, það er bara þannig. — Ég gef mér að bros hæstv. ráðherra þýði að hann sé sammála mér.

Samband íslenskra sveitarfélaga gerir eðlilega athugasemdir við að menn sjái ekki til lands í því að leikskóladvöl barna standi til boða eftir að rétti foreldra til fæðingarorlofs lýkur. Töluvert vantar upp á og sjónarmið komu fram, m.a. áðan hjá einum þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað, um að t.d. væri til skoðunar að taka börn ekki inn á landsvísu nema að hausti þannig að það yrði einu sinni á ári. Þá blasir við að slík aðgerð verður ekki aðlöguð því að börn komist inn við 12 mánaða aldur. Þau fæðast heilt yfir tiltölulega jafnt árið um kring og þá væri fullkomlega óraunhæft það markmið að við lok fæðingarorlofstöku, þ.e. við 12 mánaða aldur, kæmust börnin á leikskóla.

Ég vil enda þessa ræðu mína á að segja að öll markmið og allar ákvarðanir í þessu máli þar sem á að ráðstafa 20 milljörðum til fæðingarorlofsútgreiðslu að frumvarpinu innleiddu að fullu verða að taka mið af hagsmunum barnsins, ekki einhverjum öðrum. Þess vegna legg ég til (Forseti hringir.) að það verði engin binding neins þessara 12 mánaða við föður eða móður og jafnframt legg ég til að það verði skoðað að um verði að ræða fasta krónutölu en ekki hlutfall af launum.