150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[20:29]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur hér fram. Ég fagna því mjög að við séum að mæla fyrir þessu máli núna og að það sé á leiðinni til nefndar. Ég fagna því að ríkisstjórnin komi hér fram frumvarpi sem á að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði eftir að hafa hækkað greiðslur til fæðingarorlofs. Skiptar skoðanir eru um með hvaða hætti það skuli gert eins og hefur komið fram í umræðunni. Ég vænti þess að þegar nefndin fær málið til skoðunar muni hún líka ræða það. Umsagnir sem bárust um málið sneru annars vegar að því hvort það ætti að ganga enn lengra í að binda fæðingarorlofið við hvort foreldri um sig eða hvort það ætti að ganga skemmra. Ég held að við höfum í þessu frumvarpi náð góðri lendingu hvað það snertir með því að fara í fimm, fimm, tvo mánuði. Við skulum líka hafa hugfast að þegar ákveðnum þingmönnum, sem reyndar eru núna farnir úr salnum, verður tíðrætt um hagsmuni barna fagna ég því að þeir skuli hafa áhuga á þeim og ég vænti þess að þeir hafi það í fleiri málum. Það eru hagsmunir barna að geta á fyrstu vikum og mánuðum lífs síns og á fyrsta árinu haft tækifæri til að vera í nálægð og nánd við bæði föður og móður. Það er mikilvægt að tryggja það. Það er alltaf talað um, og í vaxandi mæli, að fyrstu mánuðirnir og fyrsta árið í lífi barns sé hvað mikilvægast. Þau sjónarmið að það sé ekki jákvætt halda ekki á lofti hagsmunum barna. Ég vil bara segja það hér í þessum sal til að það sé skjalfest vegna þess að rannsóknir sýna einmitt að með þeim breytingum sem gerðar voru þegar fæðingarorlofskerfið var sett á vorum við karlmennirnir skikkaðir til að taka fæðingarorlof sem við höfðum ekki gert. Er það ekki jákvætt fyrir börnin að geta myndað tengsl við feður sína eins og mæður sínar? Þeir sem halda öðru fram tala ekki fyrir hagsmunum barna í þessum sal. Vissulega þarf þó að vera ákveðinn sveigjanleiki og honum teljum við okkur ná fram með því að fara í fimm, fimm, tvo mánuði og gefa sveigjanleika um tvo mánuði, en við erum líka að segja að það sé mikilvægt fyrir börn að geta á fyrstu mánuðum lífs síns byggt upp náin tengsl við föður sinn eins og móður sína. Það sáum við þegar fæðingarorlofskerfið var sett á. Þetta var fyrir þann tíma sem sá sem hér stendur átti börn vegna þess að ég var bara hálfgerður unglingur á þessum árum. En það hefur verið vitnað til þess að þegar feður ætluðu að taka fæðingarorlof á þessum tíma hafi verið hlegið að þeim á kaffistofum og sagt: Hvað ert þú að taka fæðingarorlof? Ertu ekki með konu á heimilinu sem getur séð um börnin? Á sama tíma sýna rannsóknir hversu mikilvægt það er fyrir barnið að geta á fyrstu mánuðum lífs síns átt í samvistum og samskiptum við bæði föður og móður.

Mig langaði til að koma hingað og segja þetta vegna þess að við erum einmitt að gæta að hagsmunum barna með því að skikka karlmenn eins og mig og okkur sem erum hér í salnum til að taka fæðingarorlof og eyða tíma með börnum okkar á fyrstu mánuðum ævinnar.

Að þessu loknu vil ég segja um framlagningu frumvarpsins og hversu seint það er komið fram að það er ekki til eftirbreytni. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa sagt það. Það er nokkuð sem við bara tökum til okkar en ég vil líka segja að það eru mjög mörg frumvörp núna í vinnslu í félagsmálaráðuneytinu, einkum sem lúta að lífskjarasamningunum, t.d. frumvörp um leigumarkaðinn og um fyrstu íbúðarkaup, fæðingarorlofið er hérna, miklar breytingar er varða eftirlit á vinnumarkaði, auk viðamikillar vinnu sem lýtur að samþættingu velferðarþjónustu í þágu barna. Þetta eru mjög stór mál og við höfum reynt að leggja okkur fram við að vinna þau eins hratt og mögulegt er en sum þeirra hafa tekið lengri tíma en við ætluðum. Við höfum ekki farið fram á neinar sérstakar aukafjárveitingar sem tengjast lífskjarasamningunum, starfsfólk ráðuneytisins hefur einfaldlega bætt verkefnunum á sig. Við munum hins vegar reyna eftir bestu getu að koma fyrr fram með frumvörpin. Stóra málið er samt að við erum að stíga stórt skref varðandi lengingu fæðingarorlofsins. Við erum að stíga stórt skref til að bæta réttindi barna og barnafjölskyldna. Ég er ótrúlega stoltur af því og ánægður með að í tíð þessarar ríkisstjórnar muni greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi og þar af leiðandi til barnafjölskyldna þessa lands hækka úr 10 milljörðum í 20 milljarða. Það eru allt fjármunir sem renna beint til barnafjölskyldna þessa lands.

Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér fannst hún að mörgu leyti góð og vonast til þess að velferðarnefnd gangi vel við úrvinnslu málsins og ég hlakka til að fá það aftur inn í þingið til 2. umr.