151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

valfrelsi í heilbrigðiskerfinu.

[10:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram ótal tillögur, frumvörp og fyrirspurnir á umliðnum árum með það að markmiði að leysa flækjur innan heilbrigðiskerfisins, tryggja valfrelsi og að fókusinn verði settur á fólkið okkar, líðan og heilbrigði, hvorki kerfisflækjur né pólitískar kreddur, einfaldlega að þjónustan sé veitt óháð því hvort það sé ríkið eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk sem veiti hana. Afstaða Vinstri grænna, með heilbrigðisráðherra í forsvari, liggur alveg fyrir. Þau vilja ekki að einkaframtakið sé nýtt og vilja frekar styrkja opinbera kerfið. Gott og vel. Þar hefur heilbrigðisráðherra staðið við stóru orðin og þrengt verulega að sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki og sjálfstætt starfandi hjúkrunarheimilum. Upp á þetta hefur síðan Sjálfstæðisflokkurinn kvittað og má í raun segja að hann sé samsekur í sniðgöngu ríkisstjórnarinnar gagnvart sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki. Við vitum það að hluti af viðspyrnu heilbrigðiskerfisins verður að vera með hjálp sjálfstætt starfandi aðila. Biðlistarnir hrannast upp og vandamálið stækkar bara og stækkar. Þetta hefur landlæknir líka ítrekað bent á.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvar er Sjálfstæðisflokkurinn staddur núna? Styður hann það að einkaframtakið sé núna betur nýtt innan heilbrigðiskerfisins til að tryggja valfrelsi, til að tryggja þjónustu? Eða ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að vera stikkfrí í þessum málum?