151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þær spurningar sem hann bar upp. Fyrri spurningin snýr að lögbundnum verkefnum. Fjárlaganefnd lagði í nokkra vinnu og sendi samræmdar spurningar á ráðuneytin. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni með það og ég veit að hann er að vísa í 20. gr. og þá ábyrgð sem ráðherrar og ráðuneyti þeirra bera í því að draga fram skýra mynd af kostnaðinum. Ég orðaði það þannig í ræðu minni áðan að við þyrftum í auknum mæli að draga fram skýra mælikvarða á það hvað verkefnin kosta og reyna að hafa breyturnar á bak við verð og magn og ekki síður að draga þetta fram með gagnsæjum hætti. Það þarf að bæta upplýsingakerfin o.s.frv.

Frá því að við tókum upp lög um opinber fjármál þá finnst mér framför hafa orðið á hverju ári í vinnu ráðuneyta við að setja fram skýrari mynd. Á sama tíma erum við að taka upp velsældarmarkmið og það ætti að geta hjálpað okkur til að setja skýrari mælikvarða á þau lögbundnu verkefni sem hv. þingmaður vísar til. Þetta er bara vinna og það er ferli að taka upp svona stefnumarkandi fjárlagaramma. Í 69. gr. er þetta reiknað, meðaltalshækkun er 3,6%. Það er eitthvað sem hefur mikið verið í umfjöllun. Þetta er sú túlkun sem miðað er við og við fáum þessa útreikninga, þessi 3,6%, (Forseti hringir.) sem er meðaltalshækkunin og á því byggir hækkunin í fjárlögum þetta ár.