151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég spurði hvort það væri ekki réttlætanleg krafa að lífeyrir fylgdi lífskjarasamningum af því að þeir voru gerðir á annan hátt en venjulega, ekki almenn launahækkun í hlutfalli sem hefur gengið í gegnum vinnumarkaðinn heldur er sérstök áhersla á lægri laun með krónutöluhækkunum, sem hefur mjög mikil áhrif á það hvernig 69. gr. er reiknuð þótt ég ætli ekki nánar út í það.

Síðan langar mig til að spyrja formann fjárlaganefndar hvernig við komumst úr kófinu sem hefur myndast í opinberum fjárlögum. Í umræðum nefndarinnar kom fram hugmynd um að taka útgjöld vegna kófsins til hliðar, algerlega til hliðar, og afgreiða þau jafnvel á einhverjum áratugum og jafnvel vaxtalaust. Kannski gæti þetta verið sérstakt neikvætt málefnasvið, einhver áfallasjóður sem við greiðum upp vaxtalaust á 30 árum eða eitthvað svoleiðis.