151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir spurningarnar. Þær sneru að 69. gr., þ.e. að lífeyri. Mér reiknast til að þetta árið sé lögbundin leiðrétting 3,6%. Í 69. gr. segir að það beri að tryggja að hækkunin eða breytingin og hækkunin verði aldrei minni en hækkun verðlags og tekið tillit til almennra og meðaltalslaunabreytingar. Það er ekki hægt að lesa það út úr þessari grein að það eigi að taka mið af launaskriði eða einhverjum einum samningi. Svona hefur þessi grein verið túlkuð og við fáum útreiknað. Ef grannt er skoðað hefur lífeyrir hækkað umfram verðlag undanfarin ár en auðvitað hefur launaskriðið verið meira. Nei, ég er ekki í neinum vafa. Þannig hefur lagagreinin verið túlkuð og reiknuð með þessum hætti. Ef við viljum gera þetta einhvern veginn öðruvísi þá verðum við að breyta þessari grein.

Varðandi eldri borgarana er ég staðfastlega þeirrar skoðunar — ég var mjög ánægður þegar við kláruðum viðbótarstuðning við lægstu tekjutíundina. Ég var líka mjög ánægður þegar hæstv. félagsmálaráðherra setti starfshóp í gang til að kanna hvernig mætti koma með svipuðum hætti til móts við það sem við köllum tekjutíundir. Það er búið að greina þetta í tíu hópa, eða átta og níu. Ég er stuðningsmaður þess. Nú fá þeir eldri borgarar sem eiga rétt á desemberuppbót sína desemberuppbót. Ég er stuðningsmaður þess að skoða þessar næstu tekjutíundir. (Forseti hringir.) Ég vil um leið nota tækifærið og hvetja hæstv. félagsmálaráðherra að vinna áfram með það mál og hraða því þingmáli.