151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Auðvitað er það hlutverk okkar að setja hlutina í samhengi og berjast fyrir málstaðnum. Hv. þingmaður kom inn á menningu, listir, íþrótta- og æskulýðsmál og ég veit að bæði ég og hv. þingmaður, og örugglega flestir sem sitja í þingsalnum, vilja gera allt fyrir þessa málaflokka. Og það hefur ríkisstjórnin svo sannarlega gert. Áfram með samhengið, útgjaldaþróunina; 30,6% raunaukning á tímabilinu. Þetta eru 4 milljarðar, tölum um rauntölurnar, varanlega til viðbótar inn í þessa málaflokka. Í umhverfismálin eru það 8 milljarðar. Í nýsköpun og þekkingargreinar eru þetta 11 milljarðar og nú erum við bara að tala um viðbætur, viðbót inn í kerfið.

Við viljum gera betur á svo fjölmörgum sviðum og við ræddum áðan í andsvörum um heilbrigðismálin. Hver er stóra myndin? Hvernig stöndum við með ríkisfjármálin? Staðan í þeim aðstæðum sem við erum að kljást við er þessi: Í tekjufallinu sem ríkissjóður verður fyrir erum við með rúmlega 700 milljarða. Ef við tökum heilbrigðismálin og félagsmálin, heilbrigðisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið, þessi þrjú ráðuneyti og öll málefnasviðin og málaflokka þessara ráðuneyta, og bætum vaxtagjöldunum við þá eru tekjurnar búnar. Það þýðir að það sem fer í æðstu stjórnsýsluna og sjö önnur ráðuneyti um mjög mikilvæga málaflokka er allt tekið að láni, allt saman. Það verður okkar sameiginlega barátta hér á næstu misserum að fást við það.