151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég sakna þess þó að hafa ekki fengið spurningu um varasjóðinn, eða tækifæri til að ræða það. Við getum alltaf rætt það síðar. Í 20. gr. er komið inn á ábyrgðarsvið ráðherra á þeim málefnasviðum og í þeim málaflokkum sem undir hann heyra. Þar kemur fram að setja verði fram skýra forgangsröðun. Hv. þingmaður setur þetta í þann búning að ekki sé verið að fara að lögum. Það er ekki hægt að fullyrða að ekki sé verið að fara að lögum af því að verið er að forgangsraða til málefnasviða og málaflokka. Það getum við t.d. séð skýrt í nefndaráliti meiri hluta hvernig forgangsröðunin birtist hjá hæstv. ríkisstjórn á málefnasvið og málaflokka og innan einstakra ráðuneyta.

Þar sem mér finnst hv. þingmaður hafa til síns máls er greiningin á bak við forgangsröðunina. Þar verðum við að bæta okkur. Mér finnst gæta viðleitni til þess. Þar höfum við talað mikið um mælikvarða. Við getum talað um valkostagreiningar o.s.frv. þannig að við fáum alltaf nákvæman rökstuðning fyrir því af hverju eitt verkefni er valið en ekki eitthvert annað. Svo erum við með ýmis lög sem forma þetta, eins og lög um opinber innkaup o.s.frv. Ég held að ég hafi heyrt hv. þingmann segja að Sundabraut væri tilvalið verkefni, samvinnuverkefni PPP, (Forseti hringir.) og ég tek undir það. Það er verkefni sem við eigum fyrir löngu að vera búin að fara í og einmitt með þessum hætti.