151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið. Ég kom ekki hingað upp í þeim tilgangi að hrekja eitt eða neitt eða reka hv. þingmann á gat. Þvert á móti er ég mjög hlynntur því að fara faglega í hlutina, eins og hv. þingmaður gerði í ágætisræðu og vísaði í samanburð. Við skoðum gjarnan álit alþjóðastofnana á ýmsu sem við erum að gera. Ég hef ekki séð nákvæmlega þessa skýrslu, en ég hef séð einhverjar tölur. Stundum eru heildarútgjöldin sett í teljara og verðmætasköpun í nefnara og fundið út hlutfall. Nú þurfum við að skoða aldur þjóða og við erum töluvert ung. Þegar maður horfir á útgjaldahlið málefnasviðsins er hún 93 milljarðar árið 2021 og hefur hækkað um 17,5% frá 2017. Ég veit, hv. þingmaður, að á bak við allar tölur er fólk. Ég er bara að reyna að halda umræðunni við tölurnar og ríkisfjármálin í því samhengi. Við erum með fjölmargar aðgerðir þar sem við reynum að mæta þessu fólki og bæta kjör þess. Það er enginn þingmaður sem á sæti á Alþingi sem ekki vill leggja sig fram um að bæta lífskjör fólks. Það er verkefni okkar. Mig grunar að við þyrftum að skoða þennan samanburð út frá samspilinu á milli almannatrygginga og lífeyriskerfisins. Það er líka ólíkt á milli þjóða. Maður hefur séð töluna en það sem svona samanburður á að gera er að kveikja umræðuna. Svo þurfum við að fara í gegnum það (Forseti hringir.) og ég er alveg til í að skoða það með hv. þingmanni.