151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[17:58]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem bar þess vel merki hversu vandvirkur og iðjusamur hann hefur verið í vinnu fjárlaganefndar í haust; það er margt sem við könnumst vel við í okkar sameiginlega starfi þar. En það sem mig langaði til að veita andsvar við, eins og liðurinn heitir, eru orð þingmannsins um landbúnað og óskýrleika þeirrar ráðstöfunar. Ég vil benda hv. þingmanni á að í skjalinu sem fylgir meirihlutaálitinu er málið reifað nokkrum orðum. Mig langar að taka utan um það sem hv. þingmaður var að reyna að átta sig á og reyna að lýsa stöðunni fyrir honum. Við höfum haft hér ýmis almenn úrræði sem hafa nýst mörgum, en eðli búskapar er með þeim hætti að það er ekki valkostur fyrir bændur að setja kýr á hlutabótaleið eða beita slíkum tímabundnum ráðstöfunum. En veruleikinn er aftur á móti sá að afurðaverð hefur hrunið, birgðir safnast upp. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Hvaða aðra skilvirka leið hefur hann í huga þegar hann talar um þetta með þessum hætti?