151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:54]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Áfallið sem landbúnaðurinn hefur orðið fyrir vegna faraldursins er að sjálfsögðu mikið en að fá síðan þetta ofan á það er í raun og veru tvöfalt áfall, þ.e. að hér skuli flæða inn innfluttar landbúnaðarvörur í miklu meira magni en heimilt er samkvæmt samningum.

Þá langar mig að koma kannski að því varðandi þennan tollasamning sem við höfum rætt hér. Nú stendur til að breyta útboðsferli, þ.e. að taka upp eldra ferli eða aðferð sem þýðir að væntanlega kemur minna magn hingað inn. Við höfum verið þeirrar skoðunar í Miðflokknum, og ég er þeirrar skoðunar, að það verði einfaldlega að fresta þessu útboði. Staðan er það alvarleg að við verðum að nýta öll þau úrræði sem við höfum. Ég átti samtal við hæstv. ráðherra um þessi mál í óundirbúnum fyrirspurnum og þá vísaði hann til þess að við yrðum að virða samninga. En ég segi þá á móti, hv. þingmaður: Er ekki alveg ljóst að Evrópusambandið er ekki að virða neina samninga í þeim efnum núna? Þeir í Evrópusambandinu styðja við sinn landbúnað af fullum krafti og á sama tíma eru þeir að reyna að koma þessu mikla umframmagni í Evrópu út á aðra markaði og þar á meðal hingað til Íslands í gegnum samning sem virðist vera meingallaður eftir allt saman. Ég skal einfalda þetta fyrir hv. þingmann: Er hann fylgjandi því að þessu útboði verði hreinlega frestað tímabundið til að reyna að draga úr því mikla umframmagni sem er í kerfinu og á afurðastöðvum og í geymslum víðast hvar?