151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég staldra við er hvers vegna þarf að kanna kosti einhvers sem er nú þegar gert. Eitthvert sérstakt átaksverkefni í að kanna kosti þess að koma lífrænum úrgangi í einhvern ákveðinn farveg bendir til þess að verið sé að taka upp nýtt verklag en ekki að kanna kosti þess sem er hvort eð er gert. Mér þætti skiljanlegt ef fólk kæmi bara hreint til dyranna og segði að það vildi hjálpa loðdýrabændum að halda sjó í þessu árferði frekar en að búa til einhver verkefni. Þingmaðurinn útskýrir þá kannski betur fyrir mér hvað það er sem þetta verkefni bætir við þá þekkingu sem þegar er á minkarækt.

Varðandi það hversu framsækin dýravelferðarlög við höfum þá er rétt að rifja upp að þegar kemur að minkum eru þau það alls ekki. Til dæmis var bætt inn í það frumvarp á lokametrunum heimild til að drekkja minkum úti í náttúrunni. Aflífunaraðferðir á býlum eru sömuleiðis ekki endilega það sem við viljum helst varðandi dýravelferð.

Með því að nota kolefnisspor til að réttlæta eitthvað sem hefur kannski ekki verið gagnrýnt út frá kolefnissjónarmiðum, heldur frekar dýravelferð, er verið að leiða umræðuna í farveg sem hún þarf ekkert að vera í. Við getum bara tekist á við þá stöðu að þetta snýst ekkert um að vilja leggja niður þessa búgrein heldur að horfast í augu við að hún mun að öllum líkindum leggjast niður (Forseti hringir.) innan ekki allt of langs tíma. Væri ekki betra fyrir ríkið að stíga inn, (Forseti hringir.) eins og var gert með Héraðsskógaverkefnið á sínum tíma fyrir austan, og hjálpa þessum bændum að (Forseti hringir.) eiga bjarta framtíð þó að minkarækt leggist af?