151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[20:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugaverð tilraun hjá okkur þingmanninum af því að ég held að ég skilji hann alveg. Er réttlætanlegt að beita annarri aðferð við hækkun almannatrygginga núna heldur en hefur verið gert venjulega? Það getur alveg verið réttlætanlegt. Ég held það alveg, sérstaklega vegna þess að það að hækka lægstu taxta snýst alltaf um að draga úr launabili í samfélaginu og auka þar með sanngirni í samfélaginu. Það er nú alveg eitt af markmiðum okkar sem erum í stjórnmálum að samfélagið sé sanngjarnara, myndi ég vona. Hins vegar er alveg skiljanlegt að þingmanninum gangi illa að fá skýr svör frá fólki sem stöðu sinnar vegna ber meiri ábyrgð en sá sem hér stendur vegna þess að ég held að fólk sé almennt bara mjög stressað yfir því að gera eitthvað óvenjulegt við almannatryggingakerfið, að hreyfa það á einhvern hátt sem ekki hefur verið gert áður. Það er svo stórt og það eru svo stórar fjárhæðir sem um ræðir að ég get skilið fólk sem svarar þingmanninum óskýrt. En réttlætanlegt og sanngjarnt held ég að þetta geti vel verið.