151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[20:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta sögulega yfirlit yfir ólíkar hækkanir almannatrygginga og held að ég sé í rauninni í grunninn sammála honum. Það er pólitísk ákvörðun hvernig þetta er afgreitt í hverjum fjárlögum. Stundum er gangverkinu bara leyft að rúlla á einhverri sjálfvirkni en stundum er ástæða til að stíga á bremsuna eða gefa meira í heldur en excel-skjölin segja til um, það er ákvörðun sem þarf að taka. Ég held einmitt, eins og þingmaðurinn segir, að það sé í sjálfu sér ekkert að því. Ef fólk metur það svo að ekki sé svigrúm til að fara í meiri hækkanir þá er það bara pólitískt mat sem fólk getur alveg staðið við, myndi maður halda. Og aftur, þetta eru réttlætanlegar kröfur þegar fólk sér aðra hópa hækka umfram sig, hópa sem eiga samkvæmt öllu að vera í flútti, þá er réttlætanlegt að gera kröfu um það sama.