151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[21:21]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga ársins 2021 fyrir hið litla samfélag Ísland, örþjóð á eyju í hafinu sem ætti að geta virkað sem eins konar samvinnubú stærðarinnar vegna, þjóð sem er þekkt fyrir snerpu á ýmsum sviðum en að sama skapi með sundurleitiseinkenni, skort á sameiginlegri sýn í mörgum mikilvægum málum og þar sem hagsmunum fjöldans er gjarnan fórnað fyrir hagsmuni fárra. Samfélag þar sem íbúarnir eru nokkru færri en starfsmenn Costco-samsteypunnar, kaupfélags sem margir Íslendingar þekkja. Þetta er litríkt samfélag.

Frumvarpið sem við fjöllum um er auðvitað unnið við einstakar aðstæður eins og ítrekað hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna í dag og þarf ekki að fjölyrða um ástæður þess. Nauðsynlegt hefur verið að bregðast við einstökum aðstæðum ítrekað á þessu ári með fjáraukalögum. Mikil vinna og ótal stundir, bæði fulltrúa í fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, að ógleymdum starfsmönnum þingsins, liggja að baki og ástæða til að þakka þeim þeirra hlut. En niðurstaðan, það frumvarp sem við fjöllum nú um, er stjórnarandstöðu ekki að skapi eins og lýst hefur verið í allnokkrum ræðum og verulegar breytingar eru lagðar til.

Okkur hefur verið tíðrætt um, bæði í meiri hluta og minni hluta, mikilvægi þess að skapa forsendur til þess að tryggja öfluga viðspyrnu þegar rofar til í hinni miklu og erfiðu móðu faraldursins sem sett hefur hér og á heimsvísu allt á skjön og kostað miklar fórnir. Þarna stendur hnífurinn kannski tilfinnanlegast í kúnni og okkur greinir á um leiðir, aðferðir og áherslur við þessar aðstæður. Öflugt atvinnulíf er vissulega forsenda þess að samfélaginu vegni vel, að við náum vopnum okkar til að eflast og skapa verðmæti, auð til góðra verka, að við getum gengið keik til móts við óræðar en spennandi og ævintýralegar aðstæður í framtíðinni sem bíður handan við hornið með byltingarkenndum lífsháttabreytingum og tækni. En sá auður sem ekki má vanmeta og er auðvitað grundvöllur og drifkraftur alls er mannauðurinn. Á Íslandi eru 20.000 manns án atvinnu í dag, einstaklingar sem voru í starfi í gagnlegum og verðmætaskapandi störfum og vilja umfram allt halda áfram í vinnu en komast hvergi, eru slegnar út af laginu. Atvinnuleysi er lamandi og skemmir allt fólk auk þess sem það er alvarlegt hlutskipti fyrir efnahag og afkomu hverrar fjölskyldu og veldur óróleika. Þessi fjöldi atvinnulausra á Íslandi, 20.000 sem því miður verða hugsanlega eitthvað fleiri, jafngildir fjölda þeirra sem eru á vinnumarkaði á Akureyri, á Austfjörðum og á Vestfjörðum eins og hv. alþingismaður Ágúst Ólafur Ágústsson benti á í ræðu sinni í dag. Það má ekki gerast að við svo mikið sem nálgumst þær aðstæður að fjölskyldur missi heimili sín og lendi hreinlega á vergangi eins og gerðist með hörmulegum afleiðingum í efnahagshruninu 2008 þegar um 10.000 manns misstu heimili sín og við erum tæpast búin að bíta úr nálinni með það enn.

Hagsmunasamtök launafólks hafa haldið uppi vörnum fyrir sitt fólk í hremmingunum nú, sem betur fer, og eru tilbúin með tillögur um lausn og aðlögun að þeim vanda sem við blasir hjá mörgum heimilum. Þetta eru uppbyggilegar og ábyggilegar úrlausnir þar sem ríkisvaldið, Seðlabankinn og bankastofnanir í landinu þurfa að taka höndum saman um svo vel megi fara. Þessar tillögur hafa þegar verið kynntar fyrir stjórnvöldum fyrir nokkrum vikum en hafa fengið heldur dræmar undirtektir. Í þessu sambandi hefur VR verið leiðandi og hefur kynnt upplegg sem er sérstaklega áhugavert. VR leggur þannig til að veitt verði stuðningslán til heimila með fullri ríkisábyrgð og afslætti af tekjuskatti til að mæta afborgunum sem af hljótast. Reiknað er með að bankar meti greiðslugetu heimilanna og veiti þeim framfærslulán í formi lánafyrirgreiðslu eða lánalínur með ríkisábyrgð. Þannig geti heimilin áfram staðið við skuldbindingar sínar og framfleytt sér og sínum á meðan tekjubrestur varir. Slík lánalína væri til allt að 18 mánaða ef nauðsyn krefur. Þetta eru góðar tillögur og raunhæfar við okkar erfiðu aðstæður og tryggja það að fjölskyldur komist gegnum þrengingarnar með reisn og án þess að leggja heimilin í rúst. Það hefði mikið tjón í för með sér sem aldrei er hægt að meta til fjár. Öruggu viðurværi barna væri teflt í hættu og bæði andlegt og líkamlegt heilbrigði fjölskyldumeðlima getur verið í húfi. Því er skorað á stjórnvöld að ljá þessu eyra og gefa þessu gaum og ganga til samstarfs með jákvæðum hug við hagsmunasamtök launafólks um sannkallaðan björgunarpakka.

Herra forseti. Það eru fjölmörg önnur mál sem vert er að skoða í þessu frumvarpi og ástæða er til að velta við stöku steini. Á tímum sem þessum ætti að gefast gott tækifæri til að staldra við og skoða hug sinn. Það eigum við að gera og horfa fram á við, horfa langt fram. Það eiga stjórnvöld að gera. Hvað gerum við næst, hver ættu að verða næstu skrefin, hvernig vinnum við okkur af krafti út úr þessum erfiðleikum? Um það höfum við í Samfylkingunni fjallað og lagt til ábyrgar tillögur í þeim efnum og gefið út og kynnt þar sem við horfum fram á veginn, sérstaklega með velferð og hagsmuni launafólks í huga. Það er dugur í þessari þjóð og höfum það hugfast. Nýtum okkur það. Það er lag núna að horfa til uppbyggingar á nýjum tækifærum í atvinnu og sköpun. Atvinnulífið hefur orðið illa úti í faraldrinum, misjafnlega þó. Dæmi eru um að heilar greinar hafi orðið fyrir minni háttar óþægindum, á öðrum sviðum verulegum og svo eru þessi erfiðu dæmi þar sem algjört hrun hefur orðið, t.d. í greinum sem tengjast ferðaþjónustu. Þar horfum við til viðsnúnings þegar Covid er að baki, en þurfum við ekki að endurskoða stefnu okkar þar líka, horfa á stóru myndina?

Áhyggjur okkar jafnaðarmanna og afstaða mótast af því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar og áform samkvæmt þessu frumvarpi lækka atvinnuleysi einungis um 1% núna á milli ára. Það finnst okkur jafnaðarmönnum óásættanlegt og viljum leggja miklu meira í sölurnar. Til að skapa öflugt nútímalegt velferðarsamfélag sem er undir það búið að taka á móti áskorunum framtíðar þurfum við marga nýja sprota, gefa þeim færi á að blómstra og dafna eða þess vegna að falla í gleymskunnar dá. Við þurfum að vera tilbúin að gera tilraunir sem kannski heppnast, kannski ekki. Það er eðli nýsköpunar. Við þurfum að tryggja að nýsköpun og sprotastarfsemi geti fengið tækifæri til þess að eflast og dafna um allt land.

Áhyggjur vegna niðurlagningar Nýsköpunarmiðstöðvar á næstu vikum eru viðvarandi og ekki ljóst hvað við tekur. Þarna eru fræin og við megum ekki kasta þeim á glæ, kasta á dreif. Þarna liggja tækifærin okkar ótal mörg, engin takmörk. Það er einungis hugmyndaflugið okkar sem eru takmörkin. Hugvitið, við eigum dálítið mikið af því. Við eigum djarfa frumkvöðla og hugsuði sem margir hverjir þurfa meiri skilning og meiri stuðning sem enn hefur ekki verið tryggður og enn síður nú þegar yfirsýn tapast hugsanlega þegar Nýsköpunarmiðstöð, sameiningaraflið, er horfið. Eðli málsins samkvæmt eru nýsköpunar- og sprotaaðilar og frumkvöðlar fjárvana. Þeir þurfa fyrirgreiðslu varðandi umsóknir, t.d. um styrki sem bjóðast í miklum mæli og þarna eiga stjórnvöld að koma að með virkum hætti. Það er mikið í húfi. Það er orðin sérstök faggrein að útbúa vandaðar og vel útbúnar umsóknir. Frumkvöðlar eru sjaldnast sérfræðingar á því sviði.

Á landsbyggðinni er unnið að nýsköpun og annarri atvinnustarfsemi mjög víða af krafti. Best þekki ég auðvitað til í mínu kjördæmi þar sem tækniþekking er á háu stigi og fyrirtæki hafa vaxið upp úr því að vera sprotafyrirtæki í það að vera hátæknistarfsemi. Öll atvinnustarfsemi úti á landi berst þó við að halda í við samkeppni á höfuðborgarsvæðinu og raunar einnig langt út fyrir það á heimsvísu. Allir aðdrættir og aðföng eru kostnaðarsamari úti um landið vegna hárra flutningsgjalda og millifraktflutninga, hvort sem það er á sjó eða á landi. Forráðamenn þessara fyrirtækja segja að fjöldi fyrirtækja á landsbyggðinni hafi t.d. ekki aðgang að útflutningshöfnum og séu að greiða miklar fjárhæðir í flutningskostnað og þann flutningskostnað má auðvitað rekja til opinberrar skattlagningar á flutninga og flutningstæki. Þarna þarf hugsanlega að leiða huga að málunum. Við eigum flutningsjöfnunarsjóð sem hefur skilgreindu hlutverki að gegna sem miðar að því að draga úr þessum mun, aðstoða þau fyrirtæki sem mikinn kostnað hafa af flutningi á markað en fjármunir til flutningsjöfnunar eru rýrir og hafa ekki vaxið. Í þessu frumvarpi er alls ekki komið nægilega til móts við þarfirnar á þessu sviði. Þetta skiptir máli um vöxt og viðgang atvinnustarfsemi og uppbyggingar hennar um landið allt. Byggðastofnun annast umsýslu flutningsjöfnunar á grundvelli umsókna. Það er brýnt að tryggja að flutningsjöfnunarsjóður fái fullt framlag á næsta ári og næstu árum. Það eru fleiri sem orðnir eru gjaldgengir að flutningsjöfnunarsjóði. Nefni ég grænmetisbændur, sem er hið besta mál, en framlögin í sjóðinn verða þá að fylgja í kjölfarið með auknum þunga. Það er augljóst að vilji löggjafans er að jafna eins og kostur er þennan aðstöðumun fyrirtækja sem búa við hagkvæma samgöngukosti og þeirra sem ekki gera það. En flutningsjöfnunarsjóður hefur ekki náð að gegna þessu hlutverki og rýrnar enn með þessu fjárlagafrumvarpi. Því er skorað á fjármálaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formann fjárlaganefndar að taka sig taki og endurskoða þennan þátt á milli umræðna. Eftir sem áður má þó aldrei missa sjónar á stóru markmiðunum, að hið opinbera hafi forystu um græna uppbyggingu um land allt og það á auðvitað við um flutningskostina líka.

Herra forseti. Enginn skortur hefur verið á stórum yfirlýsingum og fögrum fyrirheitum í málflutningi forystufólks ríkisstjórnarinnar um loftslagsmál. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar vantar hins vegar verulega upp á að nauðsynlegt fjármagn fylgi svo hægt sé að ráðast í raunverulega stórtækar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hraða orkuskiptum. Hvað sem líður orðræðu ráðherra um græna byltingu og góða stöðu Íslands þá liggur fyrir að landið styðst við mun veikari loftslagsmarkmið en t.d. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og önnur Norðurlönd. Heildarframlög hins opinbera til loftslagsmála eru enn allt of lág og nema langt innan við 1% af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir verður aukning framlaga til málaflokksins undir 0,02% af vergri landsframleiðslu á árinu 2021. Hvorugt ber vitni um græna byltingu. Metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er ámælisvert. Í fyrsta lagi blasir við að róttækra aðgerða er þörf og hvert ár skiptir miklu máli. Með því að stjórnvöld draga áfram lappirnar verður ómögulegt að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Í öðru lagi fara metnaðarfyllri markmið og stórtækari aðgerðir vel saman við nauðsynlega fjölgun starfa og örvandi ríkisfjármálastefnu. Nú er gullið tækifæri til að leggja grunn að nýjum grænum stoðum undir íslenskt hagkerfi og verðmætasköpun framtíðar. Það þarf að endurspeglast betur í þessu frumvarpi.

Áfram rekur ríkisstjórnin skattstefnu sem ýtir undir ójöfnuð. Sú stefna er jafnvel verri en áður í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í samfélaginu þegar faraldurinn geisar og fjöldaatvinnuleysi sem bitnar með afar ójöfnum hætti á fólki og fjölskyldum. Nú væri nær að láta af ójafnaðarstefnunni og setja atvinnuskapandi skattalækkanir í forgang í stað þess að leggja ofuráherslu á lækkun skatta af fjármagnstekjum og erfðafé. Enn einu sinni boðar ríkisstjórnin sérstakar aðgerðir til að verja fjármagnseigendur fyrir verðbólgu. Það er óréttlát og óskynsamleg aðgerð sem skilar engum ávinningi nema þeim allra tekjuhæstu í landinu sem taka til sín langstærstan hluta fjármagnstekna. Að sama skapi er erfitt að sjá að lækkun erfðafjárskatts sé aðkallandi. Í alvarlegustu atvinnukreppu á Íslandi frá upphafi þess að menn fóru að mæla, hljóta áherslur af þessum toga að teljast afar ómarkvissar, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Veiðigjöld hafa lækkað umtalsvert á kjörtímabilinu og nema aðeins brotabroti af því sem eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja hirða af auðlindarentunni á ári hverju. Veiðigjöld eru nú á pari við útvarpsgjaldið. Þetta er bein afleiðing af stefnu núverandi stjórnvalda um að verja sérhagsmuni með kjafti og klóm. Til minnis má rifja upp í þessu samhengi að fyrstu skattaðgerðir ríkisstjórnarinnar eftir að kórónuveiran skall á af fullum þunga voru lækkun bankaskatts og lækkun skatta á fyrirtæki sem kaupa stór skip.

Herra forseti. Síðast en ekki síst vil ég tæpa örstutt á málefnum heilbrigðisþjónustunnar. Haldið er í sérstaka aðhaldskröfu á sjúkrahús, skóla og hjúkrunarheimili og það á tímum heimsfaraldurs. Aðhaldskrafan á heilbrigðiskerfið er meira en 2,2 milljarðar. Heilbrigðisstofnanir úti um landið stíga allar sem ein krappa ölduna. Áður en faraldurinn skall á voru blikur á lofti og sumar stofnanir þegar í vanda og er í engu brugðist við því í þessu frumvarpi. Að vísu hafa verið gefin fyrirheit um að brýnn kostnaður vegna Covid-útgjalda verði bættur en að öðru leyti er ekki um aukningu til heilbrigðismála að ræða, sérstaklega á ég hér við um landsbyggðina. Það er sérstakt áhyggjuefni þar sem álag á heilbrigðiskerfið verður fyrirsjáanlega talsvert á næstu misserum vegna lokana og tafa undanfarna níu mánuði eða svo. Almennt verður ekki séð að ákalli almennings um að heilbrigðisþjónusta skuli vera forgangsverkefni sé hlýtt í frumvarpinu, síður en svo.

Samfylkingin vill fjárfesta með mun myndarlegri hætti í fólki og fyrirtækjum og taka lengri tíma til að borga niður hallann. Stundum þarf að verja peningum til að búa til peninga. Þær aðstæður eru einmitt uppi núna. Þetta er það sem við jafnaðarmenn í Samfylkingunni köllum ábyrgu leiðina. Það er óábyrgt að gera of lítið í svona ástandi eins og ríkisstjórnin er að gera. Það er ábyrgt að taka stór græn skref núna eins og Samfylkingin leggur til. Vinna og velferð þar sem græn uppbygging er um allt land er hinn rauði þráður okkar. Það er leiðin út úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar. Því miður er það ekki sú leið sem ríkisstjórnin kynnir með þessu frumvarpi sínu, enda leggjum við til margar breytingartillögur sem ég vona að þingheimur fagni, ýti á græna takkann, merki um græna framtíð.