Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Thomas Möller (V):

Herra forseti. Ég vil gera hér að umtalsefni málefni sem varðar rekstrarumhverfi fyrirtækja og þá sér í lagi samkeppni einkarekstrar við opinber fyrirtæki. Sjálfur hef ég verið í eigin rekstri í um 15 ár og þekki íslenskt rekstrarumhverfi því ágætlega. Það einkennist oftar en ekki af gengissveiflum, háu vaxtastigi og krefjandi vinnumarkaði, svo eitthvað sé nefnt. Við þetta bætist að þúsundir einkarekinna fyrirtækja á Íslandi keppa við opinber fyrirtæki á samkeppnismarkaði og við erum að tala um árið 2022. Nýleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðuneytis segir að íslenska ríkið eigi alfarið eða ráðandi eignarhlut í 40 fyrirtækjum. Þau starfa á nánast öllum sviðum atvinnulífsins, svo sem fjármálaþjónustu, fjölmiðlun, flutningum, vörusölu, rannsóknum og ráðgjöf, svo eitthvað sé nefnt. Nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands segir að 70% forsvarsmanna opinberra fyrirtækja telja sig vera að keppa við önnur fyrirtæki og að um 40% af veltu allra opinberra fyrirtækja sem svör bárust frá séu á samkeppnismarkaði. 40% veltunnar eru á samkeppnismarkaði. Mikilvægt er að ríkið staldri við og meti hvort þörf sé á þjónustu opinberra fyrirtækja á samkeppnismarkaði, hvort einkageirinn geti hugsanlega annast hana betur, ódýrar eða að hún sé boðin út á markaði. Ríkið þarf fyrst og fremst að skapa samkeppni og draga úr umsvifum sínum þegar samkeppni er komin á þar sem ríkisvædd fyrirtæki starfa. Þannig fær einkaframtakið að blómstra, frumkvöðlar fá tækifæri og þjónusta gæti batnað.

Allt þetta sem ég taldi upp áðan og meira til vinnur gegn þeim mikilvægu samfélagslegu jákvæðu áhrifum sem fylgja virkri samkeppni. Þessi áhrif eru ekki tryggð í almennri eigendastefnu ríkisins fyrir félög í eigu þess eins og hún er í dag. OECD hefur lagt til að í eigendastefnu komið fram rökstuðningur fyrir því hvers vegna tiltekinn rekstur á samkeppnismarkaði þurfi að vera í höndum hins opinbera. Vera slíkra aðila á samkeppnismarkaði (Forseti hringir.) verði að þjóna skýrum hagsmunum samfélagsins. Þess vegna hyggst ég nýta tíma minn (Forseti hringir.) á Alþingi núna til að leggja fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin endurmeti þátttöku ríkisfyrirtækja á samkeppnismarkaði.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í störfum þingsins er takmarkaður við tvær mínútur.)