Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Það sem mig langar að ræða hér, undir liðnum störf þingsins, er fjárhagsstaða sveitarfélaga. Sveitarfélög landsins eru ólík að stærð og burðum og eðli málsins samkvæmt hafa þau komið misjafnlega út úr þeim hremmingum sem Covid-19 hefur valdið í efnahag landsins. Það er þó ljóst að staða þeirra hefur versnað til muna og sum sveitarfélög glíma nú við mjög alvarlegan rekstrarvanda og rekstrarhorfur til framtíðar eru ekki bjartar.

Það sem mig langar að varpa ljósi á hér í þessari umræðu, hæstv. forseti, er staða fjögurra stærstu sveitarfélaga landsins, Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Kópavogs og Akureyrar, en í þessum sveitarfélögum búa um 221.000 manns eða um 60% þjóðarinnar. Samkvæmt árshlutauppgjöri þessara sveitarfélaga fyrir árið 2021, sem tekið var saman af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og birtist í september á síðasta ári, má sjá að vandinn er raunverulegur. Samkvæmt samantekt sambandsins kemur fram að útgjöld hækkuðu um 13,7% og þar af eru laun og tengd gjöld um 16,3%. Halli á rekstri nær tvöfaldaðist milli ára, fór úr 5,6 milljörðum í 10 milljarða, en halli á rekstri allra sveitarfélaganna í heild nemur um 8,9% af tekjum samanborið við 5,6% á sama tíma í fyrra. Mestur var hallinn hjá Reykjavíkurborg eða 10,4% af tekjum sveitarfélagsins. Veltufé frá rekstri árið 2021 var neikvætt sem nemur 2,2% af tekjum og til samanburðar var veltufé frá rekstri jákvætt um 3,1% á sama tíma í fyrra. Skuldir og skuldbindingar námu, í lok júní 2021, um 250 milljörðum og hækkuðu um 13,9 milljarða frá áramótum eða 5,9%. Af þessu má sjá að staða sveitarfélaga í landinu er grafalvarleg og ég skora á okkur öll sem hér erum á Alþingi að taka til alvarlegrar skoðunar tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga því að vitað er að þau verkfæri sem sveitarfélögin í landinu búa yfir, er kemur að styrkingu tekjustofna, (Forseti hringir.) eru verulega takmörkuð í samanburði við ríkið.