Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Umræðan um mikilvægi klasasamstarfs hefur farið vaxandi á síðustu árum. Klasar hafa sannað að þeir bæta samkeppnishæfni og auka verðmætasköpun en nýta má þá hugmyndafræði klasasamstarfs til að ná fram auknu samstarfi og hagræðingu milli opinberra fyrirtækja og stofnana ásamt því að breyta og þróa ástand til betri vegar. Með uppbyggingu opinbers klasa er mögulegt að hagræða enn frekar í ríkisrekstri ásamt því að bæta skipulag á mörgum sviðum sem og í rekstri stofnana. Opinbert klasasamstarf getur kallað á aukna framleiðni, nýsköpun og þannig aukið verðmætasköpun. Uppbygging klasa opinberra fyrirtækja og stofnana getur skilað umtalsverðri rekstrarlegri hagræðingu en leggja má út með 5.000–6.000 m² skrifstofuhúsnæði sem kæmi til með að hýsa á bilinu 250–300 starfsmenn nokkurra minni opinberra fyrirtækja og stofnanna. Með útfærslu sem þessari má ná fram hagræðingu sem fæst með samlegðaráhrifum fyrir þau fyrirtæki og stofnanir sem þar munu verða. Þar má nefna sameiginlegan rekstur tölvukerfa, móttöku mötuneytis og rekstur húsnæðisins sjálfs, svo eitthvað sé nefnt.

Virðulegur forseti. Til viðbótar væri æskilegt að slíkur klasi yrði staðsettur á svæði þar sem nýta má umferðarmannvirki með betri hætti og er þá sérstaklega átt við að umferð verið beint gegn því sem nú er með það að markmiði að minnka umferðarþunga. Mikilvægt er að horft yrði til staðsetningar þar sem hágæðaalmenningssamgöngur eru og verða til staðar.