Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

skaðabótalög.

58. mál
[16:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða yfirferð yfir söguna og hvernig þetta púslast allt saman. Þetta vakti hjá mér áhuga á máli sem ég hef verið að pæla í í tengslum við það hvernig mismunandi leiðir til að haga skaðabótum eða lífeyri eða sektum eða ýmsu öðru dreifist út um öll lög. Það er gert á mismunandi hátt úti um allt. Í mínum fræðum, í tölvunarfræðinni og að búa til hugbúnað og slíkt, þá reynir maður alltaf að haga hlutunum þannig að þegar það er eitthvað sem er sameiginlegt, eins og t.d. ákveðin launakjör eða í þessu tilviki skaðabótakjör, ef við getum orðað það þannig, þá er haldið utan um það á einum stað. Þegar það þarf að breyta einhverju eða uppfæra eitthvað þá er það gert á einum stað og þá lagast það alls staðar. Þetta tengist kannski því vandamáli að við erum ekki með neina skilgreiningu á því hvað myndi t.d. teljast vera lágmarksframfærsla. Ef við værum með einhverjar slíkar skilgreiningar þá gætu þær t.d. verið notaðar til að uppfæra annað sjálfkrafa eftir því sem launavísitalan þróast eða hvaða aðrar vísitölur sem við viljum miða við. Þá uppfærast sjálfkrafa allir þættir í öllum öðrum lögum sem vísa í slíka sameiginlega breytu. Hér er verið að leggja til að þetta eigi frekar að fylgja launaþróun og þegar launaþróun breytist þá hefur það áhrif á lágmarksframfærsluviðmið sem væri þá eðlilegra kannski að miða við, bara í nokkurn veginn öllu eða einhverju margfeldi þar af eða því um líkt, þannig að skaðabætur væru kannski tengdar framfærsluviðmiðum, jafnvel sektir líka og ýmislegt þannig.