154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[16:19]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir framsöguna. Við erum hér að ræða tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024–2038 og svo aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, að mínu mati er hér um að ræða mjög brýna stefnu. Þó svo að við mörg hver þykjumst vita hver hin eina rétta leið er í þessum efnum er mikilvægt samt sem áður að hafa stefnu fyrir framan okkur til lengri tíma þannig að við séum að ganga reglulega í takt þó að hér verði einhver breyting á ríkisstjórnum eða þingi.

Það er sérstaklega ánægjulegt, og ég vil bara hrósa hæstv. ráðherra fyrir það, að hér er í fyrsta skipti verið að leggja fram heildstæða stefnumótun í húsnæðismálum sem nær einmitt til lengri tíma og ég held að við þekkjum það vel sem höfum starfað á vettvangi sveitarstjórnarmála hversu mikilvægt það er að hafa eitthvert slíkt plagg til að vinna eftir. Ég ætla að fá að fara aðeins yfir það á eftir ef ég hef tíma til en það eru auðvitað í þessu plaggi sem fer svo til nefndar mjög mörg metnaðarfull markmið sem eiga að leiða til þess að við getum tryggt öllum þak yfir höfuðið og lækkað byggingarkostnað, þá sérstaklega auðvitað, eins og hefur verið tekið fram, á ákveðnum tegundum íbúða. Eins og ég skil þetta erum við að tala um þetta almenna íbúðakerfi sem er að byggjast upp og hefur gengið vel á síðustu árum, alveg frá 2016, og einnig varðandi þessar hagkvæmu íbúðir sem falla undir hlutdeildarlánin. Þarna á markmiðið að vera að tryggja að húsnæðiskostnaðurinn verði viðráðanlegur. Þetta má auðvitað gera með ýmsum hætti en hér held ég að það allra mikilvægasta í þessu öllu saman — af því að við þekkjum það alveg að frá upphafi frá hugmyndum og að byggðu húsnæði er ferillinn langur og hann er oft flókinn, það eru margir sem koma þar að — sé að ef vel á að takast til séu þessir ferlar skilvirkir og einfaldir og gerðir eins vel og mögulegt er.

Það skiptir einnig máli og er mjög mikilvægt, og er ágætlega ávarpað í húsnæðisstefnunni, hvernig við ætlum að bregðast við þeim stóraukna íbúafjölda og þeim áskorunum sem því fylgja til framtíðar. En það hefur einnig, ætla ég leyfa mér að segja, frú forseti, kannski komið eilítið í bakið á okkur. Þetta hefur auðvitað verið nánast fordæmalaus fjölgun hér á síðustu mánuðum inn í þetta ástand líka, þetta snúna efnahagsástand sem við okkur blasir og hefur blasað síðustu mánuði, sem hefur orðið til þess að kannski vandinn sem hefur að einhverju leyti verið til staðar er orðinn meiri en við sáum hér fyrir, öll, fyrir einhverjum mánuðum eða árum síðan.

Við verðum að bera gæfu til þess að bregðast við og ég held að þetta sé einmitt mjög gott innlegg í það. Rammasamningar sem hæstv. ráðherra gerði og er byrjaður að gera við sveitarfélögin eru mjög mikilvægt innlegg í það að úr verði bætt og við náum á einhverjum tímapunkti að fjölga hér íbúðum og koma í veg fyrir þennan skort sem er til staðar og blasir við okkur í nánustu framtíð.

Ofan á þetta kemur auðvitað að það eru letjandi aðstæður fyrir framkvæmdaraðila í dag. Fjármagn er dýrt og það er bara til komið vegna þess að vextir eru háir. Ofan á þetta bætast hert lánþegaskilyrði sem hafa gert ákveðnum hópi í samfélaginu mjög erfitt um vik að komast inn á markaðinn. Þegar þetta er allt tekið saman er auðvitað letjandi fyrir framkvæmdaraðila að fara inn og byggja íbúðir, sem er algjörlega þvert á það sem við þurfum. Það er verk að vinna en ég treysti engum betur í þetta verkefni en hæstv. ráðherra, sem hefur komið mjög mörgu í verk í tíð sinni sem ráðherra húsnæðismála, sem hann fékk í hendurnar haustið 2021.

En hér eru, svo að ég endurtaki aðeins, átta lykilviðfangsefni til þess að mæta einmitt þessum áskorunum sem við okkur blasa þar sem áherslan er auðvitað á stöðugleika á húsnæðismarkaði og það kemur svolítið ofan á það sem ég hef áður nefnt. Við þurfum að tryggja fjölbreytni. Þar koma rammasamningarnir mjög sterkir inn sem og boðað frumvarp sem hefur fengið þetta Carlsberg-ákvæði sem er heimildarákvæði fyrir sveitarfélög og ég met það sem svo að muni styrkja einmitt sveitarfélög í þessu verkefni, að geta verið í raunverulegu samtali við framkvæmdaraðila um að byggja ákveðnar tegundir íbúða og tryggja þessa félagslegu blöndun sem er mikilvæg í öllum samfélögum og öllum hverfum í raun og veru og einnig til að mæta þessum sérhæfðu lausnum á landsbyggðinni þar sem byggingarkostnaðurinn er enn þá víða hærri en markaðsverð.

Það er margt í þessu og ég vil nefna það, af því að hér eru líka mjög metnaðarfull markmið — og það er gaman að geta sagt reynslusögur þegar maður stendur hér í þessum ræðustól Alþingis — að ég vil sérstaklega fagna því sem hér kemur fram er varðar umhverfisvænar byggingar og leiðir til að tryggja þetta. En ég ætla að leyfa mér að segja að Hafnarfjörður held ég að hafi verið fyrst þeirra sveitarfélaga sem bjuggu til hvata fyrir framkvæmdaraðila til að byggja samkvæmt vottunum, samkvæmt Svaninum og BREEAM, og gaf afslátt í staðinn af lóðarverði til að mæta þeim aukna kostnaði sem fylgir því að sækja þessar vottanir. Það er því mjög ánægjulegt að sjá það hér inni í þessari stefnu þar sem sérstaklega er kveðið á um að það eigi að fara þessa leið líka fyrir þær íbúðir sem eru byggðar með opinberum stuðningi þar sem á móti kæmi þá einhvers konar stuðningur frá stjórnvöldum inn í slíka vinnu. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt vegna þess að ég held að þetta sé bara gríðarstórt umhverfismál. Byggingariðnaðurinn er mjög stór í því öllu saman og það er mikilvægt að það séu einhvern veginn allir að dansa í takt í þessu.

Annað sem ég vil nefna hér eru auðvitað aðgengismálin, þ.e. algild hönnun og aðgengi fyrir öll, eins og það er orðað hér í stefnunni. Ég sé það bara á þeim texta sem hér er að það er ekkert verið að hörfa frá þessu þrátt fyrir að það sé ávarpað í stefnunni að það eigi að reyna að lækka byggingarkostnað. Ég held að þetta sé eitt þeirra atriða sem við megum aldrei gefa neinn afslátt af, algild hönnun, að í engum byggingum sé gefinn afsláttur af því að það sé aðgengi fyrir öll, eins og það er orðað hér. Það er sérstaklega mikilvægt og ég held að það sé mjög brýnt, af því ég veit það og þekki það bara sjálfur að það myndast oft þrýstingur, sérstaklega í ástandi eins og nú þar sem er dýrt að framkvæma og fjármagnið dýrt, um að fá afslátt af hinu og þessu og þetta hefur oft verið einn af þeim þáttum sem hafa komið upp í samtölum við þann sem hér stendur þegar hann starfaði í bæjarráði Hafnarfjarðar og bæjarstjórn og var í skipulagsmálunum þar.

Hér í fyrri ræðu kom hv. þm. Logi Einarsson og fjallaði um fjölgun rammasamninga. Ég held að það sé mjög brýnt og ég held að öll sveitarfélög sem ég hef rætt við séu öll af vilja gerð að koma og taka þátt í þessu en við endum einhvern veginn alltaf á sama stað: Það vantar lóðir. Hafnarfjarðarbær á til að mynda engan lóðir í dag nema þéttingarreiti þar sem er atvinnuhúsnæði til staðar. (Forseti hringir.) Það var því ánægjulegt, ég verð að segja það, frú forseti, að sjá það sem kom fram í samtölum eða spurningakönnun sem var send út á sveitarfélög (Forseti hringir.) en eitt af því sem þar kom fram var að það væri einmitt mikilvægt að taka upp svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, (Forseti hringir.) og ég ítreka, án þess að því sé kollvarpað, til þess einmitt að tryggja að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu geti tekið þátt í gerð rammasamninga og tryggt húsnæði fyrir alla.