154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

dreifing starfa.

453. mál
[17:18]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um söfnun upplýsinga um dreifingu starfa. Ég ætla að byrja á því að fara yfir það hvað þessi ályktun felur í sér. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að skipa starfshóp sem falið verði að gera tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum til söfnunar og vinnslu upplýsinga um landfræðilega dreifingu starfa og skilgreiningu hlutverks og ábyrgðar þeirra aðila sem málið varðar. Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innviðaráðuneytis, auk þess sem leitað verði til fulltrúa Hagstofu Íslands, Vinnumálastofnunar, sveitarfélaga og annarra fagaðila við mótun tillagnanna.

Tillögur verði kynntar Alþingi fyrir 1. desember 2024.“

Tilgangur tillögu þessarar er að gera Hagstofu Íslands kleift að taka saman gögn um dreifingu starfa um landið. Staðan er sú að þegar kemur að gögnum um staðsetningu starfa stendur Ísland höllum fæti í samanburði við önnur lönd í Evrópu og Norður-Ameríku. Þjóðskrá hefur upplýsingar um lögheimili fólks og með greiningu þeirra gagna er hægt að fá fram upplýsingar um íbúadreifingu. Upplýsingar um dreifingu starfa vantar hins vegar, sem og upplýsingar um ferðamynstur milli heimilis og vinnu. Nákvæm gögn um þessi atriði hljóta að vera ein af forsendum vandaðrar ákvarðanatöku, t.d. á sviði samgangna og byggðaþróunar.

Það er töluverð eftirspurn eftir svona gögnum meðal fagaðila og hagsmunaaðila. Þau gögn sem eru til eru ófullnægjandi þar sem ekki er hægt að svara með nákvæmum hætti hversu margir starfa í tilteknu sveitarfélagi, hversu margir búa í einu bæjarfélagi en starfa í öðru eða hversu hátt hlutfall íbúa starfar í tíu mínútna fjarlægð frá eigin heimili. Þess í stað þurfa fagaðilar að notast við óbeinar aðferðir til að áætla svör við þessum spurningum. Til dæmis hafa menn farið þá leið að styðjast við fermetrafjölda atvinnuhúsnæðis og umreikna hann yfir í starfafjölda, með tilheyrandi skekkju eða að notast við gögn úr símaskrá eða jafnvel hafa beint samband við einstök fyrirtæki til að afla upplýsinga um staðsetningu starfa.

Ein ástæðan fyrir því að staðan er eins og hún er er sú að í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra eru allir starfsmenn fyrirtækja skráðir í höfuðstöðvum viðkomandi fyrirtækis, þ.e. skráðu lögheimili félags, alveg óháð því hvort fyrirtæki rekur starfsstöðvar þar eða jafnvel starfsstöðvar víða um land, í öðrum sveitarfélögum eða jafnvel innan viðkomandi sveitarfélags þegar um er að ræða stærri og fjölmennari sveitarfélög. Það vantar sem sagt upplýsingar um raunverulega staðsetningu starfa, sem er lykilatriði þegar kemur að því að greina stöðu atvinnulífsins innan ákveðins svæðis, sveitarfélags eða landshluta. Svo að ég taki dæmi eru störf hótelstarfsfólks iðulega skráð á höfuðborgarsvæðinu, í höfuðstöðvum viðkomandi hótels eða fyrirtækis, þó svo að störfin séu unnin á hóteli eða í starfsstöð úti á landi. Sömu sögu er að segja um skráningu starfsfólks, t.d. olíufélaga sem eru með höfuðstöðvar í Kópavogi en hefur síðan starfsstöðvar víða um allt land. Afleiðing þessa háttar sem við höfum á þessum málum er gjarnan ofmat á fjölda starfa á höfuðborgarsvæðinu og svo vanmat á stöðu landsbyggðarinnar. Hún kemur einfaldlega verr út en hún ætti að gera ef störf væru skráð á þeirri starfsstöð þar sem þau eru unnin.

Það er alveg ljóst að það er mikill ávinningur af því að geta nálgast áreiðanlegar og ítarlegar upplýsingar til greiningar í stað þess að byggja á einhverjum milliútreikningum eða áætlunum. Í fyrsta lagi myndi það spara talsverðan tíma og kostnað vegna gagnavinnslu og úrvinnslu slíkra upplýsinga. Í öðru lagi auðveldar það samanburð við önnur lönd sem er mjög oft gagnlegt. Í þriðja lagi myndi slík gagnasöfnun stuðla að vandaðri stefnumótun og ákvarðanatöku og koma í veg fyrir ósamræmi milli aðila en slíkt getur mjög hæglega gerst í dag, að fagaðilar, sem jafnvel eru að vinna saman að einhverju verki, áætli fjölda starfa á einhverju svæði með mismunandi hætti.

Umferðarmannvirki eru stór hluti af heildarfjárfestingum hins opinbera. Nú er fyrirhuguð mikil uppbygging umferðarmannvirkja þegar farin af stað í tengslum við samkomulag um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu svo að dæmi sé tekið, þar með talið borgarlínu. Síðan er auðvitað um áframhaldandi uppbyggingu samgöngumannvirkja annars staðar á landinu að ræða. Til þess að hægt sé að hafa forgangsröðun þessara fjárfestinga sem besta, spá fyrir af nákvæmni um mögulega álagspunkta, tryggja sem best flæði umferðar o.s.frv. þá er auðvitað mjög mikilvægt að búa yfir upplýsingum um helstu áfangastaði í samgöngukerfinu. Það er auðvitað alla jafna ferðalög fólks á milli heimilis og vinnustaðar.

Það liggur líka í hlutarins eðli að upplýsingar af þessum toga myndu nýtast í byggðarannsóknum, vinnumarkaðsrannsóknum og öðrum samfélagslegum rannsóknum og við gerð sóknaráætlana landshluta, eftirfylgni slíkra áætlana og gerð byggðaáætlana, sem og auðvitað skipulag almenningssamgangna um allt land. Þá geta aðilar á markaði nýtt sér þessar upplýsingar við ákvarðanatöku um staðsetningu á alls konar þjónustu; matsölustöðum, verslunum og annarri þjónustu sem bæði þykir rétt og eðlilegt og mikilvægt að hafa í nágrenni við heimili fólks og helstu vinnustaði.

Ef við lítum síðan lengra til framtíðar en akkúrat til þess að safna þessum upplýsingum um starfsstöðvar þá er líka eftirsóknarvert að geta safnað á landsvísu upplýsingum um aðra heita reiti með sambærilegum hætti, t.d. um skóla, gististaði, heilbrigðisstofnanir, sundlaugar og aðra staði sem þekkt er að fylgi regluleg umferð. Það er hins vegar alveg vel í lagt að byrja með þetta verkefni eingöngu, eins og sjá má á listanum yfir þá aðila sem okkur flutningsmönnum tillögunnar þykir rétt að komi að málum. Það er nóg að gera í næstu áföngum ef við förum af stað með þetta verkefni núna.

Flutningsmenn þessarar tillögu, sem koma, auk þingflokks Viðreisnar, frá Flokki fólksins, Framsóknarflokki, Pírötum og Samfylkingu, leggja til að það verði tekið mið af fordæmum nágrannaríkja Íslands þegar kemur að vinnu og tillögum starfshópsins. Það má t.d. nefna að í Danmörku heldur fyrirtækjaskrá utan um skráningu starfsstöðva og fjölda starfsmanna á hverri starfsstöð en danska Hagstofan sér síðan um frekari úrvinnslu þeirra gagna sem safnað er saman.

Í tillögunni er líka lagt til að þegar þessar upplýsingar liggi fyrir verða þær birtar gjaldfrjálst á opnu og læsilegu sniði og uppfærðar að lágmarki árlega. Það er lagt til að grunngögnin verði gerð opinber og aðgengileg, þó þannig vitanlega að persónuverndarsjónarmiða sé gætt. Með opnu sniði er átt við snið sem ekki krefst aðgangs að sérstökum gjaldskyldum hugbúnaði þannig að hægt sé að nýta gögnin. Það er jafnframt átt við að gögnin séu birt á þann hátt að það sé hægt að nýta þau, vinna með þau og síðan jafnvel selja þau áfram án sérstakrar heimildar frá aðila sem upprunalega tekur þau áfram og heldur utan um þau. Grunnurinn að þessari tillögu er sá að það gagnast okkur öllum að þessar upplýsingar séu aðgengilegar, að þær séu nýttar og að sem flestir hafi aðgengi að þeim, annaðhvort hráum eða unnum áfram í sérstökum tilgangi.

Frú forseti. Upplýsingar um landfræðilega dreifingu starfa gætu gagnast fagaðilum sem vegna starfsemi sinnar, eða skyldu að lögum, vinna að fjárfestingum og ákvarðanatöku á sviði samgangna og byggðaþróunar. Má þar nefna sem dæmi Vegagerðina, Byggðastofnun, Strætó, Hagstofu Íslands, sveitarfélög, landshlutasamtök, háskóla og ráðgjafarfyrirtæki. Verði þessi tillaga samþykkt gæti hún stuðlað að því að þessir aðilar og fleiri gætu sinnt hlutverki sínu af meiri nákvæmni en áður með tilheyrandi ávinningi fyrir íslenska þjóð.

Ég er mjög meðvituð um að þetta er nokkuð viðamikið verkefni og í tillögunni er þess vegna ekki mjög nákvæm útfærsla á því hvernig markmiðunum skuli náð að öðru leyti en því að þeir aðilar sem rétt þykir að taka þetta verkefni að sér eru tilgreindir í starfshóp. Það getur vel verið að það þyki rétt að bæta einhverjum öðrum aðilum við þann hóp en ég geri síður ráð fyrir að menn telji rétt að fækka eða kippa einhverjum út. E.t.v. koma síðan í meðförum nefndar fram nánari tillögur um það hvernig hópurinn skuli vinna og ég bendi aftur á að söfnun og vinnsla upplýsinga af þessu tagi á sér fordæmi meðal nágrannalanda okkar.

Að lokum vil ég síðan nefna, vegna þess að þetta er jú í þriðja skipti sem ég legg þessa tillögu fram, að á ársfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fyrr í haust var skorað á þingmenn að klára þetta mál, að samþykkja þingsályktunartillögu þá sem ég mæli fyrir hér og nú, og ganga frá þeim lagabreytingum sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að hefjast handa við að safna upplýsingum um dreifingu starfa um land allt. Ég óska eftir því að málinu verði vísað til skjótrar og öruggrar meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd að lokinni þessari umræðu og að þingheimur taki áskorun Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og klári málið hratt og örugglega.