135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

áherslur íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:52]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra reyndi að kenna okkur að telja áðan og sagði að átta væru níu. Nú segir hæstv. umhverfisráðherra að við botnum ekki neitt í neinu, þingmenn Vinstri grænna. (Gripið fram í.)

Við skiljum vel og vitum að á Balí hafa menn sett sér það mark sem vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur mælt með sem er að það fari ekki yfir 2° hækkun. (Gripið fram í: Um hvað ertu að …?) Ég er að minna á það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan og iðnaðarráðherra. Hæstv. iðnaðarráðherra sagði að helmingurinn af niðurskurði í gróðurhúsalofttegundum kæmi frá eyðingu regnskóga og með kolefnisbindingu. (Gripið fram í.)

Ætlum við að fara að rækta regnskóga hér? Við erum jú að gera tilraunir með bindingu kolefnis. Við erum að spyrja: Hvað ætla menn að gera heima hjá sér? (Gripið fram í.) Við skulum athuga að ef hér stendur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 25–40%, eins og hér segir, fyrir árið 2020 — og við skulum bara gefa okkur millileiðina þar — þurfum við að minnka útblásturinn úr 18 tonnum á mann í 12 tonn á mann. Hvar er aðgerðaáætlunin til þess? (Gripið fram í.) Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera annað en að fara til Balí með gamla stefnu, framsóknargrautinn frá í fyrra, án nokkurra markmiða sem hægt er að fylgja eftir og segja þar: Jú, gerið þið þetta?

Markmiðið er að koma öllum að borðinu. Ég segi nei. Markmiðið er að við tökum til heima hjá okkur og það verði ekki sótt um frekari undanþágur í því efni. (Forseti hringir.) Það er Íslandi til skammar.