135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuskattur.

290. mál
[21:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta hafa verið mjög fróðlegar umræður. Komið hefur fram að barnabætur hækka að hlutfalli til minna en skattleysismörk og ýmis önnur viðmið í tekjusköttum.

Mig langar til að rifja upp umræðu sem fór fram á Alþingi í upphafi ársins. Þá var sagt úr ræðustóli m.a., með leyfi forseta, nánar tiltekið 30. janúar 2007:

„Árið 1995 voru greiddar ótekjutengdar barnabætur til allra barna að 16 ára aldri en nú eru þær einungis greiddar til barna að 7 ára aldri. Þetta er veruleg breyting sem kom raunverulega í valdatíð þessarar ríkisstjórnar í upphafi, að hætta að greiða ótekjutengdar barnabætur til allra barna að 16 ára aldri. Ég býst við að ekkert land sé hægt að finna sem greiðir eins lágar barnabætur og hér er gert og skerðingin er örugglega hvergi eins mikil og hérna. Þær eru raunverulega alls staðar ótekjutengdar og greiddar í flestum tilvikum börnum að 16 eða 18 ára aldri. Þar er um raunverulegar barnabætur að ræða, virðulegi forseti, en í höndum þessarar ríkisstjórnar hafa barnabæturnar orðið að láglaunabótum.“ (Gripið fram í.)

Síðar segir sami ræðumaður eftir að hafa furðað sig á því að stjórnarliðar skuli hafa kjark til að koma í ræðustól á Alþingi og berja sér á brjóst og ræða um barnabætur á Íslandi.

Ræðumaður segir, með leyfi forseta:

„Hver er staðreyndin í þessu máli? Ég hef látið reikna þetta allt saman út. Staðreyndin er sú að barnabætur skertust frá 1995 til 2005 um 10.450 millj., um liðlega einn milljarð á hverju einasta ári frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Barnabætur hafa hækkað frá 1995 um 14% meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 41%. Þetta eru staðreyndir málsins og liggja fyrir reiknaðar út af hagfræðingi, barnabæturnar hafi verið skertar um liðlega einn milljarð á hverju ári frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Þær hafa hækkað um 14% frá 1995 og vísitala neysluverðs um 41%.“

Hér var verið að tala fyrir frumvarpi sem Samfylkingin flutti og það var 1. flutningsmaður frumvarpsins, hæstv. núv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, sem hafði orðið. Hún sagði við forseta þingsins að það væri eitt af brýnustu úrlausnarefnum þingsins og óskaði eftir því að það fengi hraða meðferð.

Mig langar nú að beina þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki hafi komið til tals við ríkisstjóranarborðið af hálfu Samfylkingarinnar, ráðherra Samfylkingarinnar hæstv., að knýja fram breytingar á barnabótakerfinu þannig að fulltrúar þess flokks gætu nú komið hér kinnroðalaust í ræðustól á Alþingi. Ég hef margoft spurt um þróun barnabóta á undanförnum árum. Síðast fékkst við því svar undir lok undir lok vorþings og kom fram að árið 1991 voru barnabætur á föstu verðlagi miðað við árið 2005 7,5 milljarðar rúmir en voru á árinu 2005 komnir niður í 5,3 milljarða. Það gerðist þrátt fyrir hin digru loforð Framsóknarflokksins á sínum tíma um að stórbæta barnabótakerfið og varð tilefni þess að hæstv. núv. félagsmálaráðherra og sá sem hér stendur vöktu athygli á þróun barnabótanna og sviknum fyrirheitum í því efni. Ég hef hér útskrift af ræðuhöldum sem fram fóru á síðasta degi þingsins þar sem ég vakti athygli á því svari sem ég hafði þá nýfengið í hendur um hver þróunin hefði verið. Hæstv. fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, varð til svara fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og varð reyndar nokkuð svarafátt.

Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. félagsmálaráðherra, tók mjög undir málflutning minn og sagði m.a., með leyfi forseta:

„Það er mjög vel við hæfi á þessum síðasta degi þingsins á kjörtímabilinu að ræða svar fjármálaráðherra um skerðingu á barnabótum þar sem ráðherrann staðfesti sjálfur það sem við höfum ítrekað haldið fram í Samfylkingunni,“ — það var reyndar svar sem var að koma við fyrirspurn frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, en látum vera — „þá gífurlegu skerðingu sem orðið hefur á barnabótum á kjörtímabilinu sem er um 10 milljarðar frá árinu 1995 til 2005 og staðfest er í þessu svari. Þó að verið sé að bæta þetta á síðasta ári og þessu ári þá er eingöngu verið að skila litlu til baka af þeim tíu milljörðum sem hafa verið teknir af barnafólki, kannski innan við 20%. Það sem verra er, er líka það að núverandi ríkisstjórn hætti að greiða ótekjutengdar barnabætur ...“

Síðan fer hæstv. ráðherra út í málflutning sem ég hef hér vísað til og hún hafði uppi við annað tækifæri eða í ársbyrjun, 30. janúar.

Ég vil fá það upplýst — það er synd að hér skuli enginn vera til svara úr Samfylkingunni (SJS: Þeir fóru úr salnum) — þeir eru allir flognir burtu úr salnum en hæstv. fjármálaráðherra situr hér sem betur fer. Ég beini til hans þeirri spurningu hvort rætt hafi verið við ríkisstjórnarborðið á síðustu dögum eða vikum við fjárlagagerðina eða við gerð frumvarpsins sem er til umræðu, að bæta í barnabótakerfið í anda þess sem talað var yfir og vitnað hefur verið til af hálfu Samfylkingarinnar. Ég óska eftir að fá svar við því frá hæstv. fjármálaráðherra.

Ég veit að því miður tíðkast um of að ráðherrar komi sér hjá því að svara en það er einföld, efnisleg, málefnaleg spurning. Ég óska eftir að fá það upplýst hvort Samfylkingin hafi talað fyrir því við ríkisstjórnarborðið að hækka barnabæturnar og hver hafi þá verið afstaða Sjálfstæðisflokksins. Samfylkingin hefur áður talað með ákveðnum hætti um þær svívirðilegu skerðingar sem barnafólk hefur þurft að sæta á undanförnum árum. Komu kröfurnar aldrei fram frá Samfylkingunni eða komu þær fram og var hafnað af hálfu Sjálfstæðisflokksins? Mér finnst eðlilegt að við fáum það upplýst við umræðu um málið, þegar hún verður, eftir allar yfirlýsingarnar, allar miklu heitstrengingarnar um úrbætur. Við skulum ekki gleyma kosningaloforðunum sem gefin voru í sambandi við barnabæturnar. (Gripið fram í.) Ég bíð eftir að hæstv. fjármálaráðherra verði við beiðni minni og svari þeirri einföldu spurningu.