136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

efling gjaldeyrissjóðsins.

[14:24]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skal halda mig við ræðutímann. Ég þakka formanni Framsóknarflokksins fyrir þetta innlegg um gjaldeyrisforðann og mikilvægi þess að auka hann. Allir flokkar á Alþingi hafa verið talsmenn þess að auka gjaldeyrisforðann. Við fórum í gegnum þá umræðu í vor þegar við tókum í gegn heimild til ríkissjóðs Íslands um sérstaka lántöku á árinu 2008 en sú lántaka hafði ekki áhrif á aðrar lántökuheimildir ríkissjóðs samkvæmt 5. gr. fjárlaga fyrir þetta ár. Í þeirri umræðu greiddu því allir atkvæði enda var grunntónninn í henni og því leiðarstefi sem var lagt upp með að það væri mikilvægt að styrkja og efla gjaldeyrisforðann.

Það var farið yfir það í þeirri umræðu hvernig ríkisstjórn Íslands og Seðlabankinn hefðu á undanförnum árum markað ákveðnar leiðarlínur í því að efla gjaldeyrisforðann og, virðulegi forseti, ég mun ekki fara frekar í það.

Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að henni hafi þótt það skrýtið að formanni fjárlaganefndar hafi þótt bjart fram undan. Ég tel það hlutverk stjórnmálamanna hverju sinni að tala stöðuna upp frekar en niður og ég mun alltaf gera það. Ég mun ekki víkja mér undan því og þrátt fyrir að nú gefi til að mynda á í fjárlögum hér á landi og fjárlagagatið stækki skiptir verulegu máli að tala hlutina upp. Ég veit ekki betur en að formaður Framsóknarflokksins hafi gert það á umliðnum árum, hafi frekar talað upp en niður.

Virðulegi forseti. Við vitum að fram undan er erfiður vetur fyrir landsmenn alla og við þurfum að taka á okkur auknar byrðar. Skiptir því verulegu máli að menn geri sér grein fyrir því (Forseti hringir.) að þegar við eflum gjaldeyrisforðann erum við um leið að auka fjármagnskostnað (Forseti hringir.) ríkisins sem þýðir það að ríkisútgjöldin aukast.