137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

strandveiðar.

[12:37]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í Morgunblaðinu þann 6. júlí sl. birtist lítil frétt sem lét ekki mikið yfir sér en hún fjallar um fyrstu sjáanlegar afleiðingar af því frumvarpi sem varð að lögum er snúa að strandveiðum. Í fréttinni er sagt frá því að veiðar hafi hafist um síðustu mánaðamót og, með leyfi forseta, vil ég vitna beint í fréttina. Þar stendur:

„Nú er því allt útlit fyrir að tveggja mánaða kvóti“ — þ.e. kvóti júnímánaðar og júlímánaðar — „verði uppveiddur fyrir vikulok á Norðvesturlandi en svæðið nær allt frá Snæfellsnesi og að Skagafirði.“

Síðan segir í fréttinni að gífurleg keppni sé á milli manna um þessar veiðar og augljóst sé að æsingurinn er mikill. Niðurlag fréttarinnar hljóðar svo:

„Fari svo fram sem horfir, sjá trillusjómenn á Norðvesturlandi fram á rólegheit fram til 1. ágúst, þegar kapphlaupið um ágústkvótann hefst.“

Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins vöruðum nákvæmlega við þessu í umræðunni um þetta mál. Við bentum á að það sem mundi gerast þegar menn færu þessa arfavitlausu leið væri það að bátunum mundi fjölga strax til mikilla muna, það mundu hefjast kappveiðar, ólympískar veiðar.

Ég verð reyndar að játa það að ég átti von á að það yrði kannski ekki svo mikil aukning í sumar en aukningin mundi verða mest næsta sumar. En að sjálfsögðu fór þetta þannig að strax varð gríðarleg aukning, gífurleg kappsemi, mikill æsingur og menn klára tveggja mánaða kvóta fyrir lok þessarar viku. Hvernig sjá menn fyrir sér að þetta verði t.d. næsta sumar þegar menn hafa haft sæmilegan tíma til að undirbúa sig, þegar menn hafa haft tíma til að koma inn í þetta? Þá standa menn frammi fyrir því að sífellt verður að fækka dögunum, fleiri og fleiri bátar liggja við bryggjurnar ónotaðir og krafan mun vaxa dag frá degi á hæstv. sjávarútvegsráðherra (Forseti hringir.) um að auka þann kvóta sem er til skiptanna til að menn þurfi ekki að liggja og bíða eftir því að geta farið í kapp eftir næstu mánaðamót.