137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég hefji mál mitt á andsvari við hv. þm. Birki Jón Jónsson varðandi Icesave-málið þá hef ég komið að því áður að ég hlustaði á þessa umræðu. (BJJ: Var hún ekki góð?) Ég verð að harma það, hv. þm. Birkir Jón, að ég heyrði áköll þín. Aðstæður mínar voru þannig að ég gat ei komist frá. En ég hlustaði svo sannarlega á þig.

Frú forseti. Ég lofa því hér með og mun ekki skirrast undan því að í 2. umr. munu hv. þingmenn njóta samvista við mig í þessum sal og ég mun svara því sem ég verð að spurð. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

Varðandi ráðherraábyrgðina þá hefur sú sem hér stendur, frú forseti, verið talskona þess að fólk axli ábyrgð, pólitíska ábyrgð ekki síður en lagalega ábyrgð. Í mínum skilningi er það svo að brjóti einhver hjá Eignaumsýslunni lög þá er það að sjálfsögðu þannig að það eru mál sem þurfa að fara fyrir dómstóla því að lögbrot eru (Gripið fram í.) meðhöndluð frammi fyrir dómstólum. (PHB: Hver kærir?)

Varðandi ráðherraábyrgðina er það svo að Bankasýslan er með stjórn sem er skipuð af ráðherra. Við töldum það að lokum mikilvægt til þess að ábyrgð hans væri skýr í málinu og því er sú starfsemi sem fer fram í umboði Bankasýslunnar að sjálfsögðu á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra og það er ljóst að mínu mati, frú forseti.