138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Já, hæstv. forseti. Ég tel allar tillögur aðrar en þá sem hér er á borðinu vel þess virði að skoða. Ég vil hrósa hv. þingmanni fyrir að koma með hugmynd þar sem hæstv. fjármálaráðherra hefur margfullyrt það í þessum ræðustól að við í stjórnarandstöðunni höfum engar hugmyndir að öðrum lausnum í málinu. Við höfum margsannað það í umræðum að það er rangt. Hér fara margir hv. þingmenn með mjög efnismiklar og vel útfærðar ræður um það hvað annað megi gera í þessu máli. Og það er, herra forseti, engin skömm að því fyrir forustumenn ríkisstjórnarinnar að draga þetta mál til baka. Málið er einfaldlega í hnút. Og er það ekki ágætisvopn í hendur þeirra sem fara þá aftur út í heim til að upplýsa það að við getum ekki gengið að þessum nauðasamningi Breta og Hollendinga, að hafa það vopn í höndum að þingið samþykkir þetta ekki? Þjóðin samþykkir þetta ekki. Það eru um tuttugu þúsund manns búin að undirrita áskorun (Forseti hringir.) til forseta Íslands um að hafna staðfestingu þessa (Forseti hringir.) lagafrumvarps verði það að lögum. Við samþykkjum þetta ekki. (Forseti hringir.)