138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:13]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Birgi Ármannssyni að sá fundur sem hér stendur yfir mundi verða bæði gagnlegri og umræður dýpri ef fram kæmu svör frá hæstv. utanríkisráðherra um þá þætti sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi. Það væri líka gagn að því fyrir okkur hér á þessum fundi, sérstaklega ef hann á að vera langur og innihaldsríkur, að hæstv. forsætisráðherra kæmi hingað og skýrði okkur frá því hvort upplifun hæstv. forsætisráðherra sé sambærileg við það sem hér hefur verið lýst af hæstv. fjármálaráðherra og öðrum hvað varðar samskipti við aðrar þjóðir.

Ég vil einnig beina því til forseta að skoða vel hug sinn um það hvort ekki sé hægt að koma betra skipulagi og skikki á starfið hér. Hér var talað um breytingar á mælendaskrá sem eru auðvitað eðlilegar í ljósi þess að forseti hefur ekki viljað gefa upp hvenær fundi lýkur. (Forseti hringir.) Það er eðlilegt þegar menn eru að reyna að skipuleggja sig og búa við óvissu að óvissa skapist í mælendaskrá.