139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

endurskoðun niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu.

[15:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur boðað að til standi að endurskoða fyrirhugaðan niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni en svo virðist sem þar sé fyrst og fremst um að ræða frestun á hluta niðurskurðarins, þ.e. að til standi að ganga jafnlangt og upphaflega var boðað í fjárlagafrumvarpinu en gera það á væntanlega tveimur árum í stað eins. Í þessu felst að það verði beinlínis stefnubreyting á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, það verði með öðrum orðum kerfisbreyting. Það hefur verið gagnrýnt töluvert að menn ætli að ráðast í slíka breytingu í gegnum fjárlög, að í stað þess að ræða kosti og galla ólíks fyrirkomulags svelti menn þessar stofnanir til að breytast. Þá skiptir kannski ekki öllu máli hvort það gerist á einu ári eða tveimur, og jafnvel hafa sumir haft á orði á þessum stöðum þar sem mestur niðurskurður er áformaður að betra sé að strax liggi fyrir til hvers menn ætlast ef þeir ætla ekki að halda úti þeirri þjónustu sem þar hefur verið frekar en að menn dreifi þessu á lengri tíma og viðhaldi varanlegri óvissu.

Er það rétt, spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra, að til standi eftir sem áður að ráðast í þann mikla niðurskurð sem í upphafi var boðaður en gera það hins vegar á lengri tíma, þ.e. tveimur árum í stað eins?