143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ný stjórn RÚV og uppsagnir.

[10:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég ber fullt traust til stjórnar Ríkisútvarpsins. Hún er skipuð af Alþingi og henni er falið vandasamt verkefni. Það er nauðsynlegt að það liggi fyrir að ég ber traust til stjórnar Ríkisútvarpsins.

Ég vil líka segja annað. Það sem ég átti við þegar ég nefndi að við værum með vanda víðs vegar þegar kemur að ríkisrekstrinum, hvort sem um er að ræða heilbrigðisþjónustu, skólamálin, menntamálin almennt eða menningarmálin, er að þar sem við erum í slíkri stöðu þurfum við að forgangsraða, rétt eins og síðasta ríkisstjórn stóð frammi fyrir erfiðum ákvörðunum. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það var ekki auðvelt fyrir þá sem þar sátu að draga úr framlagi til Ríkisútvarpsins og ýta því meira út á auglýsingamarkaðinn, þó þannig að það þurfti að segja upp tugum starfsmanna.

Ég kalla bara eftir því að í umræðu um þetta mikilvæga mál spari menn sér pólitísk brigslyrði, fari ekki fram með slíkum yfirlýsingum um að um sé að ræða pólitískar ofsóknir (Forseti hringir.) heldur horfi á málið af meiri sanngirni (Forseti hringir.) og meiri ábyrgð. Það er þannig sem við leysum málin.