144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér erum við að tala um aga og freistnivanda ríkisstofnana og þeirra sem þurfa að sækja sér fé til ríkisins til að fara fram úr fjárveitingavaldinu. Því er ég algjörlega mótfallin. Stofnanir sem slíkt gera hafa ekki nokkra einustu heimild til þess að stilla þingmönnum upp með þeim hætti fyrir framan orðinn hlut — og hvað eiga þá þingmenn að gera? Neita viðkomandi fjárútlátum og láta stofnanirnar taka af því rekstrarfé sem þeim var áætlað samkvæmt fjárlögum? Auðvitað væri það réttast. En þrýstingurinn er mikill.

Ég er til dæmis með óbragð í munni yfir tillögunni um 130 milljónirnar inn í rekstur Alþingis vegna þess að það keyrði fram úr á þessum fjárlagalið.

Ég er ekki hrifin af því að hafa mörg fjáraukalög á ári og bregðast við með þeim hætti. Ég tel að fyrirkomulagið sé ágætt eins og það er. Svo er verið að boða (Forseti hringir.) ný lög um opinber fjármál sem raunverulega eiga að taka langtum meira á þeim vanda að þingmenn þurfi að vera með tvenn fjárlög í gangi, gera áætlanir fyrir (Forseti hringir.) komandi ár og vera að loka yfirstandandi rekstrarári.