144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga. Það kom heldur seint fram, ég geri mér alveg grein fyrir því að það er að mörgu að hyggja áður en slíkt frumvarp er lagt fram. En öllu verra er að það var varla komið úr prentun þegar farið var að boða á því breytingar og jafnvel viðamiklar breytingar. Því velti ég fyrir mér hvort ekki væri betra að bíða aðeins og koma með svo að segja tilbúið frumvarp. Ég hef reyndar heyrt þau rök að frumvörp séu lifandi gögn en ég verð að segja að mér finnst það réttmæt krafa að frumvörp séu eins vönduð og mögulegt er og sérstaklega fjárlagafrumvarp og fjáraukalagafrumvarp þannig að ekki þurfi að fara í viðamiklar breytingar og eyða tíma og orku í það.

Í sjálfu sér ætti ekkert að vera í fjáraukalagafrumvarpi nema óvænt útgjöld og ófyrirséð og útgjöld vegna kjarasamninga og kannski einstaka „leiðréttingar“ en þær ættu að vera sem fæstar og vel rökstuddar. Mér finnst mikill munur á þessu frumvarpi til fjáraukalaga og því sem var lagt fram í fyrra þar sem voru alveg ógrynni af fjárlagaliðum sem að mínu viti áttu ekkert erindi í fjáraukalög. Mér finnst ég aðeins skynja það að stjórnvöldum er mikið í mun að þetta ár, 2014, sem þau bera algerlega ábyrgð á, verði innan ramma fjárlaga á meðan menn voru eitthvað aðeins afslappaðri í fyrra fyrir árið 2013 en þá var líka hægt að kenna öðrum um.

Það eru nokkrir liðir sem vekja athygli sem ég ætla að fara aðeins yfir, sem ég get ekki séð að séu ófyrirséðir eða óvæntir og geri athugasemdir við. Það eru rannsóknarnefndir Alþingis. Mér finnst það í rauninni bara sorgarsaga hvernig það allt hefur farið. Hér er verið að sækja um fjármagn aftur, það var líka í fjáraukalögum í fyrra. Hér segir í frumvarpinu:

„Vegna mikillar óvissu um það hvort og þá hve mikil fjárþörf yrði á árinu 2014 var ákveðið að bíða átekta og fara ekki fram á fjárveitingu í fjárlögum.“

Mér finnst þessi setning mjög merkileg vegna þess að það á ekki að vera mikil óvissa um það hvort og hve mikil fjárþörf er í svona verkefni. Við gerum þá kröfu til stofnana og annarra sem fá fé frá ríkinu að því sé vel varið og menn haldi sig innan fjárheimilda. Þá er ekki nógu gott að Alþingi sjálft skuli ekki hafa stjórn á sínum verkefnum, og ekki er við neinn annan að sakast en okkur hér á Alþingi. Ég mun því ekki geta samþykkt þessa tillögu, það er bara þannig.

Við getum ekki gert kröfur á stofnanir sem lenda í alls konar vandræðum. Sumt af því er alls ekki viljandi, það geta verið breytingar, kostnaður vegna starfsmannamála, uppsagnir, biðlaun og alls konar dótarí sem stofnanir bera enga ábyrgð á, en við gerum samt þá kröfu að þær finni þetta af rekstrarfé sínu. Við eigum að vera yfir það hafin að sækja um á fjáraukalögum, sérstaklega fyrir svona verkefni. Þetta finnst mér merkilegt.

Sótt er um framlag til að mæta kostnaði við störf ráðgjafa um afnám fjármagnshafta. Það er mjög gott að verið sé að vinna í því máli. Það hefur legið fyrir nokkuð lengi að við ætlum okkur að afnema fjármagnshöftin þannig að það er þá bara eðlilegt að gera ráð fyrir kostnaði á fjárlögum í það verkefni.

Það er nýtt verkefni hér sem er eflaust hið besta verkefni sem kallast byggðaáætlun, 50 millj. kr. tímabundið framlag í eitt ár til uppbyggingar á iðnaðarsvæði við hafnarsvæðið í Bíldudal, og mun einnig fá framlag í fjárlögum 2015 ef það gengur eftir. Ég geri ekki lítið úr þessu en að það komi nýtt inn á fjárauka er sérstakt. Þar eiga almennt ekki að vera ný verkefni og færi betur á því að þeim peningum væri ráðstafað þess vegna í gegnum Byggðastofnun.

Svo er annar liður sem við höfum ítrekað rætt í þingsal og það er Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Verulega athyglisvert var að í síðustu fjárlögum var ekki beðið um mikið fjármagn í þann framkvæmdasjóð þótt það lægi í rauninni ljóst fyrir að miklu meiri peninga þyrfti til að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar. Þá erum við að tala einungis um viðkvæm svæði, göngustíga og annað slíkt. Við bentum á það í nefndarálitum okkar, og stundum veltir maður fyrir sér hvort ekki væri ágætt að lesa nefndarálitin, þá gætum við komið í veg fyrir svona rugl. Þetta hefur nefnilega ekki gengið alveg eftir, það voru alls ekki nógu miklir peningar settir í þennan málaflokk. Því er farið í það núna á árinu að setja 380 milljónir til viðbótar og svo er beðið um það hér í fjáraukanum. Þetta eru vinnubrögð sem eru ekki í lagi. Rökin sem við höfum fengið eru þau að menn töldu að einhverjar aðgerðir, eins og náttúrupassi eða önnur skattlagning, yrðu komnar til framkvæmda. Hins vegar hefur hæstv. ráðherra ferðamála ítrekað svarað því í þingsal að hún vilji vanda til verka og ekki flýta sér. Það lá því alveg ljóst fyrir að það átti ekkert að fara að æða í þetta verkefni og ekki hægt að ábyrgjast það að tekjur yrðu af náttúrupassa á árinu 2014. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er líka gert ráð fyrir mjög litlu framlagi í sjóðinn, þannig að væntanlega munum við aftur á fjáraukalögum á næsta ári fá leiðréttinguna inn aftur.

Hérna er liður sem heitir málskostnaður í opinberum málum, sem virðist ítrekað vera vanáætlaður, en lagt er til 250 millj. kr. hækkun á framlagi. Þetta er reyndar liður þar sem vissulega getur verið erfitt að áætla en er í skoðun núna hjá ráðuneytinu. Og svo vakti aðeins athygli minni hlutans setningin um að Ríkisendurskoðun sé með málaflokkinn til skoðunar. Ríkisendurskoðun gerir bara úttekt á stofnunum og getur ef hún er beðin gert ýmsar stofnsýsluúttektir en ég vænti þess nú að Ríkisendurskoðun muni meta það sjálf hvort það sé verkefni sem fellur undir hana eða hvort þetta sé eitthvað sem ráðuneytið eigi í rauninni að vinna, þ.e. með að fara í einhverja vinnu sem eigi að varpa ljósi á útgjaldaþróunina og til hvaða aðgerða megi grípa til að ná tökum á útgjöldunum. Þegar ég les þetta finnst mér þetta vera frekar hlutverk ráðuneytisins en ekki Ríkisendurskoðunar.

Síðan er liður sem við höfum aðeins verið að velta fyrir okkur, þ.e. samningur við sérgreinalækna sem tók gildi 1. janúar á þessu ári en ekki var gert ráð fyrir auknum fjárheimildum fyrir þeim útgjöldum í fjárlagafrumvarpi ársins í ár. Þar af leiðandi er 1,1 milljarður sem hefur fallið til, væntanlega ekki búið að fjármagna hann. Ég geri athugasemdir við þegar farið er í að hækka gjaldskrá og það á að fjármagna liðinn. En hins vegar verður að segjast eins og er að sjúklingar greiddu þá minni kostnað á móti. Það er svolítið sérstakt að þetta komi inn í fjáraukalögin og í rauninni er engin beiðni fyrir þessum útgjöldum en tekið fram að í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2015 sé gengið út frá því að þessi reglugerð verði að fullu komin til framkvæmda. Það er þá mikilvægt að svo verði, en ef ekki menn setji þá meiri peninga í þennan útgjaldalið.

Það komu inn liðir í breytingartillögum meiri hlutans. Þar var margt sem var jákvætt og góðar tillögur. Háskólinn á Akureyri fær 30 millj. kr. til að standa undir ákveðnu hlutverki varðandi rannsóknarprófessora og fleira. En koma þyrfti því þannig fyrir að gert yrði ráð fyrir því í fjárlögunum sjálfum. Túlkasjóðurinn hefur verið nefndur, en síðan eru liðir sem við gerum athugasemdir við eins og 5 millj. kr. vegna kals í túnum. Ég efast ekki um að þarna hafi orðið eitthvert tjón en við höfum ekki séð neitt um það mál og engin gögn sem gefa til kynna hver raunverulegur skaði varð. Eins vegna rektorsskipta og bágrar fjárhagsstöðu Landbúnaðarháskólans. Ég geri ekki lítið úr því að skólanum veitir ekki af peningum en mér finnst þessar tillögur koma inn svolítið bakdyramegin og mér finnst eðlilegt að öll fjárlaganefnd hefði fengið tækifæri til að ræða þetta og sjá þá þær beiðnir ef þær liggja fyrir sem eru fyrir þessum fjárlagaliðum. Ég var bara að heyra um þetta í fyrsta skipti þegar 1. minni hluti gerði grein fyrir breytingartillögum sínum.

Að öðru leyti finnst mér mjög til bóta hvað fjáraukalagafrumvarpið er að minnka og það hlýtur að vera það sem við viljum stefna að. Við höfum kannski einn punkt hérna sem er Íbúðalánasjóður. Lögð er til 1,5 milljarða kr. lækkun á 4,5 milljarða kr. varúðarrekstrarframlagi til sjóðsins og metið sem svo að það þurfi ekki að vera svona hátt. Það er í rauninni mjög gott ef svo er. En það er setning neðst í frumvarpinu á bls. 100 undir þessum lið: „Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki fengið haldbærar áætlanir sem sýna fram á frekari fjárþörf á yfirstandandi ári en birtist í árshlutauppgjöri sjóðsins.“ Hún stingur aðeins í augu vegna þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið verður auðvitað að fá haldbærar áætlanir frá Íbúðalánasjóði ef verið er að taka svona ákvarðanir. Út frá þessu mætti skilja að upplýsingarnar frá Íbúðalánasjóði séu ekki nógu góðar, ég ætla ekki að gefa mér að svo sé en orðalagið er svolítið skrýtið.

Annars held ég að ég hafi svo sem ekki meira um frumvarpið að segja fyrir utan það sem kemur fram í nefndarálitinu okkar, sem er ítarlegt og gerð hefur verið grein fyrir hér.