145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég skil eiginlega ekki hvers vegna við getum ekki staldrað við og stoppað í dag. Ég átta mig ekki á því hverju það breytir fyrir málið þó að hugsanlega einn þingmaður tali í viðbót. Það eru engin mál á dagskrá frá ríkisstjórninni. Það hefur verið þannig meira og minna, þannig að það vantar ekki pláss í dagskrá morgundagsins til að ræða þetta mál og skiptir í rauninni engu. Það er miklu skynsamlegra að láta hér staðar numið og ég mundi helst vilja að málið yrði tekið til hliðar, eins og hér hefur margítrekað verið bent á, og reynt að leita sátta.

Ég held að það sé möguleiki að slíkt verði ofan á í ljósi þess sem hér hefur verið rakið. Ég tel að utanríkisráðherra væri maður að meiri ef hann léti sjá sig í þingsal og ræddi málin við okkur þingmenn eða þá að hann féllist á (Forseti hringir.) að taka upp þráðinn og ræða þótt ekki væri nema þá gagnrýni sem komið hefur fram á greinargerðina.