146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvor rökfræðin gengur upp, mín eða hv. þingmanns. Það má velta fyrir sér hvaða staðreyndir hann er að fjalla um hverju sinni. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan erum við með gott fyrirkomulag. Stór hluti landsmanna er sammála því. Hv. þingmaður sagði að ungt fólk drykki minna þrátt fyrir aukið aðgengi. Hvers vegna skyldi það vera? Vegna þess að aðgenginu er stýrt. Það væri með öðrum hætti en það væri ef það færi út til kaupmannsins á horninu, ef það færi út í matvöruverslanirnar. Ég er búin að rekja hér hvers vegna það er.

Ég tek undir með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, landlækni, skólameisturum, öllum uppeldis- og fræðslustofnunum og þeim sem við höfum fengið umsagnir frá um frumvarpið. Þótt um sé að ræða kannanir í útlöndum þýðir ekki sjálfkrafa að þær séu réttar og sannar, en það er bara ekki ein könnun og ekki bara tvær sem komast að þessari niðurstöðu og það veit hv. þingmaður. Þess vegna finnst mér að þingmenn sem tala fyrir þessu máli séu svolítið komnir út í horn hvað þetta varðar. Ég held að þingmenn ættu frekar að einbeita sér að því að taka það alvarlega sem hér er sagt. Kannski ættum við að láta kanna ákveðna hluti áður en svona frumvarp er lagt fram. Það væri kannski skynsamlegra.

En það sem er undirliggjandi hér, og við vitum það alveg, er að það sem kapítalið talar fyrir er frelsi. Frelsi hverra? Frelsi kaupmanna. Það er ekki frelsi einstaklingsins í þessu samhengi. Hverjir kalla eftir þessu? Hverjir eru það, hv. þingmenn, sem kalla raunverulega eftir þessu? Ekki eru það Sjálfstæðismenn samkvæmt könnun. Ekki eru það 75% þjóðarinnar, þau segja nei. (BN: Við neytendur.) Þetta eru neytendur, væntanlega. Hluti Sjálfstæðismanna vill þetta ekki, það eru neytendur. 75% þjóðarinnar sem segir nei eru neytendur. Allt eru þetta neytendur. Hverjir kalla eftir þessu? Það er verslunin sem kallar eftir þessu, hv. þingmenn, og þið eigið að viðurkenna það.