146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:52]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir fyrir svarið. Hv. þingmaður ræddi hér m.a. um umferðaröryggi og þær tölur sem við höfum séð frá OECD-ríkjunum um að ölvunarakstur aukist með auknu aðgengi að áfengi. Í greinargerð með frumvarpinu og í frumvarpinu sjálfu er lagt til að hlutfall af áfengisgjaldi sem renni í lýðheilsusjóð hækki frá 1% upp í 5% verði frumvarpið að lögum, til þess að vinna að forvörnum á þessu sviði. Mig langar að benda á að í nýlegum tölum, frá því í desember síðastliðnum, kemur fram að ölvunarakstur hefur aukist verulega hér á landi. Það er langt síðan við höfum séð svona háar tölur. Telur hún ekki og finnst henni ekki skrýtið að eingöngu sé talað um tvö ár (Forseti hringir.) í frumvarpinu sem eiga að geta lagað þá aukningu sem orðið hefur á ölvunarakstri, og aðra þætti sem við þurfum að taka á?