146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

kjararáð.

189. mál
[20:54]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það að ákvörðun kjararáðs brjóti forsendur aðila á vinnumarkaði þá er það ekki beint þannig, svo það komist alveg skýrt til skila. Það gerist óbeint. Því að fólki sem semur á vinnumarkaði finnst það bara ekkert sanngjarnt að ráðamenn hækki svona mikið. Þá vill það líka hækka. Þetta er höfrungahlaupið. Að sjálfsögðu. Ég talaði við þingmenn um þetta mál. Og vitið þið hvað? Þingmönnum finnst bara ekkert sniðugt að verið sé að lækka bara þingmenn en ekki aðra aðila sem heyra undir kjararáð. Öpum finnst það heldur ekki skemmtilegt þegar annar apinn fær banana en hinn ekki. Þetta er þekkt sálfræðitilraun á öpum. Apar hafa líka þetta sanngirnis-element. Þeir verða alveg brjálaðir ef þeim finnst á þeim brotið með sanngirnisreglum. Að sjálfsögðu eru mannaparnir ekkert öðruvísi. Það er þess vegna sem þetta hefur áhrif. Fólk vill að komið sé fram við það af sanngirni. Það er ekki sanngjarnt þegar laun ráðamanna hækka langt umfram launaþróun almennings á vinnumarkaði. Um 70% í þessu tilfelli. Þess vegna veljum við árið 2013 af því að 70% launafólks með 100 kjarasamninga þurfa að sætta sig við samninga frá þeim tíma. Eða það þarf ekkert að sætta sig við. En það er það sem forysta þeirra hefur stillt upp og var samþykkt á sínum tíma. Þar af leiðandi er það bundið í þessa samninga.

Þetta er spurning um sanngirni og skynsemi. Að við séum ekki leiðandi í launaþróun í landinu, að við fylgjum frekar á eftir og pössum upp á að þeir sem setja lög um okkur fylgi þeim. Þeir hafa ekki gert það. Það eina sem við segjum í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) er að kjararáð skuli taka nýja ákvörðun þannig að laun ráðamanna fylgi launaþróun almennings.