146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[21:28]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um aðskilnað fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Ásamt mér eru á henni flutningsmenn úr fjórum flokkum, þ.e. Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Pírötum, Framsóknarflokknum og Samfylkingunni. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að útbúa lagafrumvarp sem tryggi aðskilnað starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka með það að markmiði að lágmarka áhættu þjóðarbúsins vegna bankareksturs og minnka líkur á tjóni almennings af völdum áfalla í bankastarfsemi.“

Eins og kemur fram í greinargerð hefur þingmál þessa efnis alloft áður birst á vettvangi Alþingis án þess að vera nokkru sinni leitt til lykta. Þó má segja að umræða um þessi mál hafi farið heldur vaxandi á Alþingi á undanförnum árum. Hér var flutt þingsályktunartillaga fyrst á 130. löggjafarþingi en síðan hefur verið, eins og ég nefndi, mælt fyrir slíkum málum alloft. Slík umræða hefur líka átt sér stað erlendis, til að mynda innan Evrópska efnahagssvæðisins. Eins og hv. þingmenn þekkja er þetta orðin sígild umræða.

Í fyrirliggjandi tillögu til þingsályktunar er gert ráð fyrir að samið verði og lagt fyrir Alþingi lagafrumvarp sem tryggi aðskilnað starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Rekstur fjárfestingarbanka og rekstur viðskiptabanka er gerólíkur. Mikið álitamál er hvort þessi rekstur geti átt farsæla samleið í einu og sama fyrirtækinu en mat á því fer fram á forsendum almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna þeirra sem eiga og starfrækja fjármálafyrirtækin. Það er þó ekki eina leiðin til að aðskilja slíka starfsemi. Það má hugsa sér að hún sé aðskilin innan sömu fyrirtækja. Þess vegna er hér ekki lagt fram frumvarp heldur þingsályktunartillaga sem miðar að því að þessar leiðir verði kannaðar.

Hér kemur fram að almenn viðskiptabankastarfsemi byggist á inn- og útlánum og því sem kalla má hefðbundna fjármálaþjónustu við einstaklinga og fyrirtæki og nýtur sem slík sérstakrar verndar hins opinbera sem baktryggir þessa starfsemi að ákveðnu marki með innlánavernd. Fjárfestingarbankar fást hins vegar við fjármögnun ýmiss konar fjárfestinga; viðskipti með verðbréf, hlutabréf, ráðgjafarstarfsemi og eignastýringu og rekstur þeirra er að jafnaði til muna áhættusæknari og áhættusamari en starfsemi hinna almennu viðskiptabanka.

Með tillögunni er fylgiskjal þar sem leitast er við að skilgreina fjárfestingarbankastarfsemi. Er um að ræða upplýsingar sem óskað var eftir af hálfu Fjármálaeftirlitsins frá viðskiptabönkunum. Hér er lögð fram skilgreining á fjárfestingarbankastarfsemi. Ég veit að ýmsum hv. þingmönnum hefur orðið tíðrætt um að menn séu að ræða um fjárfestingarbankastarfsemi án þess að vita hvað í henni felst. Ég hef alloft heyrt það í þessum sal. Þar með er verið að gera lítið úr þeim sem vilja eiga slíka umræðu. En það þarf svo sem ekkert að vera að velta sér sérstaklega upp úr því. Ef við horfum til þeirra skilgreininga sem hér er vitnað til, þ.e. í fyrsta lagi í Vickers-skýrslunni sem hefur nú vakið talsverða umræðu, er slík starfsemi skilgreind sem aðstoð við öflun hlutafjár og fjármögnunar, ráðgjöf í tengslum við samruna og yfirtökur, kaup og sala verðbréfa ásamt markaðsvakt, fjárfesting í fjármálagerningum, lánveitingar til stærri fyrirtækja. Í Liikanen-skýrslunni er horft líka á eigin viðskipti, stöðutöku í tengslum við viðskiptavakt, fyrirgreiðslur til vogunarsjóða, sérstaklega fjárfestingafélaga og annarra sambærilegra sjóða og þátttöku í fjárfestingum fjárfestingafélaga og sjóða. Ef við horfum til Volcker-reglunnar er talað um viðskipti með flestar tegundir verðbréfa, miðlun verðbréfa, umsjón með útgáfu verðbréfa og viðskiptavakt.

Hér kemur fram að þessar skilgreiningar eru auðvitað ekki fullnægjandi. Þess vegna skiptir einmitt máli að við á vettvangi Alþingis ræðum þetta. En hins vegar liggur fyrir að hlutfall fjárfestingarbankastarfsemi var 14–25% í lok árs 2013, eftir því við hvaða skilgreiningu af þessum þremur við styðjumst. Við vitum líka að þetta hlutfall hefur væntanlega farið hækkandi á undanförnum árum. Ég óskaði eftir nýjum upplýsingum fyrir þetta mál en fékk ekki. Þeirra er enn beðið. Vonandi getum við óskað eftir þeim í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þannig að við fáum að vita hvert þetta hlutfall er orðið og miðað við hvaða skilgreiningar.

Fjárfestingarbankastarfsemin var talin vera u.þ.b. 30% af heildarstarfsemi bankanna fyrir hrun. Ég ætla ekki að fara að rekja söguna sem rakin er í greinargerðinni í löngu máli en vil þó segja að beggja vegna Atlantsála hafa menn velt því fyrir sér hvaða leiðir megi fara til að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarstarfsemi, þ.e. annars vegar hvort rétt sé að taka í raun á nýjan leik upp Glass-Steagall-lögin sem snúast bara um aðskilnað slíkrar starfsemi í ólíkum fyrirtækjum eða hvort rétt sé að setja takmarkanir á umfang fjárfestingarstarfsemi innan hvers viðskiptabanka eða gera kröfur til aðskilnaðar þegar fjárfestingarstarfsemi er komin yfir ákveðið hlutfall af bankastarfseminni innan tiltekins fyrirtækis. Allar þessar leiðir hafa verið ræddar.

Ég vitna í greinargerð í breska hagfræðinginn John Kay sem kom til Íslands í boði Samfylkingarinnar, ef ég man rétt, þegar hann gaf út bókina Other People´s Money árið 2015. Þar ræðir hann þessar tillögur talsvert og gagnrýnir þá áherslu sem hefur verið á aukið regluverk innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem við sem störfum á vettvangi þingsins þekkjum nú orðið allvel því að hér höfum við verið að innleiða mjög tæknilegar og mjög flóknar gjörðir sem ætlað er að auka eftirlit og aðhald með fjármálafyrirtækjum. Það sem Kay bendir á í sinni bók er að það sé gríðarleg vinna við þetta regluverk, það sé mjög ógagnsætt, á köflum óskiljanlegt og taki ekki á grunnforsendum vandans, þ.e. uppbyggingu sjálfs fjármálakerfisins. Í þessari ágætu bók er bent á að innan Evrópska efnahagssvæðisins vinni verulegur fjöldi fólks, þúsundir manna, að því að koma ýmist þessu regluverki á eða innan bankanna við að innleiða regluverkið innan fjármálafyrirtækjanna. Um þetta hafa íslensku fjármálafyrirtækin rætt, að þetta kalli auðvitað á verulega mikla vinnu. Það hefur Fjármálaeftirlitið líka bent á. Og um leið hlýtur sú eðlilega spurning að vakna hvort við séum að horfa fram hjá einhverjum grundvallarspurningum um það hvort vandinn liggi kannski ekki í smáatriðunum heldur í stóru atriðunum, þ.e. uppbyggingu sjálfs kerfisins og menningunni innan sjálfs kerfisins.

Það hefur komið fram og kemur fram hér að aðskilnaður í bankakerfinu hefur verið til athugunar í viðskiptaráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Hann var til athugunar í tíð síðasta hæstv. fjármálaráðherra og það kom fram hjá núverandi hæstv. fjármálaráðherra að það hefði verið settur á starfshópur sem ætti að athuga þetta. Ekki heyrði ég betur. Það hefði verið gott að hafa hæstv. ráðherra hér og það hefði náttúrlega verið frábært að ræða þetta mál í dagsbirtu, ég sé að það er verulegur áhugi hjá hv. þingmönnum að ræða málið og hefði verið stórkostlegt að hafa þetta á dagskrá að degi til en ekki klukkan hálftíu á þriðjudagskvöldi en það er svona sem skipulag þingsins er. Það hefði auðvitað verið frábært að hafa hæstv. ráðherra til að taka þátt í umræðum um eitt stærsta mál fjármálakerfisins. Það hefði verið mjög gott. En þar sem þetta mál er lagt fram af venjulegum þingmanni er það náttúrlega ekki einu sinni í boði. Þetta er nú svona sem Alþingi virkar. Ég ætla bara að taka aðra umræðu um það seinna meir. En auðvitað er algerlega fráleitt að við séum að ræða þetta eitthvert þriðjudagskvöld, að hæstv. fjármálaráðherra sé ekki á staðnum, að við séum ekki að ræða þetta í fúlustu alvöru, sérstaklega þegar við sjáum að það er verulegur áhugi á þessari umræðu.

Hvenær ætlum við þá að taka hana? Í umræðu hér sem tók 30 mínútur um uppbyggingu og framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið — en við vitum öll hver raunin er um þá framtíðarsýn og svokallaða eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtækin sem lögð hefur verið fram, það stendur ekkert í henni — sagði hæstv. ráðherra: Já, frábært. Við skulum endilega taka þessa umræðu á vettvangi þingsins. Af hverju er hæstv. ráðherra þá ekki hér úr því að hann vill endilega taka þessa umræðu á vettvangi þingsins? Mér þætti vænt um að fá hæstv. ráðherra til að ræða þessa umræðu sem hann er svona æstur í að taka. Ég er ekki hissa á því að hæstv. ráðherra sé æstur í að taka þessa umræðu því að það kom fram fyrir kosningar, og það er nú eitt sem ég held að ýti undir það að við ljúkum meðferð þessa máls á vettvangi þingsins, það verði ekki svæft eins og gerist gjarnan með þingmannamál. Fyrir kosningar voru allir formenn eða talsmenn flokka sem ekki eru með formenn spurðir út í framtíðarsýn þeirra fyrir fjármálakerfið. Þáverandi formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir sem hér er í salnum, ræddi að það væri mjög mikilvægt að nýta tækifærið meðan bankakerfið væri í eigu ríkisins til að breyta kerfinu og það þyrfti að ræða út í hörgul aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Þetta kom allt fram í fréttaskýringu á Stöð 2 í síðustu formannaumræðum þar fyrir kosningar. Ég sjálf talaði á svipuðum nótum, það væri mjög mikilvægt að ljúka þessari skoðun. Formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, vildi kanna til hlítar kosti þess að aðskilja starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Hv. þm. Smári McCarthy sem hér er í salnum ræddi að það væri mikilvægt að fara vel yfir regluverk um starfsemi fjármálafyrirtækja, sérstaklega til þess að tryggja að sala bankanna færi fram með vönduðum hætti. Ég velti því fyrir mér hvað hv. þingmanni finnst um þá sýn sem er búið að leggja fram í eigandastefnu um fjármálafyrirtæki þar sem í raun og veru, eins og ég sagði áðan, kemur mjög lítið fram um regluverkið. Nánast ekki neitt.

Hæstv. fjármálaráðherra núverandi, formaður Viðreisnar, sagði þá, og mér finnst það mjög merkilegt og þess vegna hefði verið gott að eiga þessa umræðu við hann, að það væri ljóst að bankar ættu ekki að vera miðjan í hagkerfinu eins og þeir hefðu verið áður. Þeir hefðu fyrst og fremst verið í fjárfestingarstarfsemi. Hæstv. fjármálaráðherra sagði þá, fyrir kosningar, að bankar ættu fyrst og fremst að lána fé, fjárfestingarþátturinn, a.m.k. sá sem sneri að kaupum á hlutum í öðrum fyrirtækjum, ætti ekki heima í almennum bönkum. Nema málskilningur minn sé orðinn eitthvað meira en lítið skrýtinn heyrist mér hæstv. ráðherra þarna vera að tala fyrir aðskilnaði viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi.

Hæstv. forsætisráðherra, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, ræddi líka í þessum ágæta þætti í fréttaskýringu fréttamannsins Þorbjörns Þórðarsonar, að hann vildi fá reglur um starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka sem takmörkuðu áhrif áhættusamrar starfsemi á áhættuminni starfsemi. Hann talaði þar um smithættu á milli. Hæstv. heilbrigðisráðherra Óttarr Proppé taldi mikilvægt að fara ekki í að selja banka í einhverju fúski. Þetta kom allt fram í þessum ágæta þætti. Og mér sýnist á því að það sé yfirgnæfandi meiri hluti fyrir því að ráðast í einhvers konar aðskilnað á viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi. Ég held líka að ef við ætlum að ráðast í það sé mikilvægt að þær reglur liggi fyrir áður en ráðist verður í sölu á eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Þess vegna hlýt ég að furða mig á því, og ég hafði auðvitað tvær mínútur í sérstakri umræðu hér á mánudag til að koma ýmsu að um eigandastefnu í fjármálafyrirtækjum, að í þessari eigandastefnu er ekkert rætt um þetta. En sex af sjö talsmönnum og formönnum fyrir kosningar voru á því að þetta þyrfti að gera með einhverjum hætti, annars vegar með því að skipta því hreinlega upp þannig að slík starfsemi væri í ólíkum fyrirtækjum eða setja reglur um slíkan aðskilnað innan fyrirtækjanna eða setja hámarkshlutfall á það hversu mikil fjárfestingarstarfsemi má vera innan banka.

Þetta er auðvitað líka mikilvæg spurning ef við ætlum að fara að selja banka eða eignarhluti í bönkum. Þá hljótum við að velta fyrir okkur hvort ekki sé mikilvægt að þetta liggi fyrir. Ég get tekið undir það, sem hef talað fyrir því að ríkið eigi viðskiptabanka. En á ríkið að eiga umfangsmikla fjárfestingarbankastarfsemi? Það finnst mér ekki.

Þeir sem hafa haldið því fram að ekki sé hægt að skilgreina fjárfestingarbankastarfsemi: Það er hægt. Það er ekki fullkomið samræmi milli þeirra skilgreininga sem hafa verið notaðar. Það sýnir að við þurfum umræðu um málið, þurfum að vinna að því að taka þessa umræðu, skipa þennan starfshóp. Ég er opin fyrir því í umræðum nefndarinnar að við skoðum ólíkar leiðir, að ólíkar leiðir verði skoðaðar í að ná fram þessum aðskilnaði. En ég tel að þetta ætti að vera eitt mikilvægasta verkefni Alþingis, að skoða þetta og ljúka þessari umræðu. Og það kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að hann teldi að það væri full ástæða til að taka þessa umræðu, en á sama tíma, og það kom líka fram í umræðum fyrir kosningar, að það lægi ekkert á því að selja banka eða eignarhluti í bönkum. Það lægi ekkert á. Mér finnst það algerlega fráleitt að ráðast í slíka sölu áður en þessi umræða hefur verið tekin á vettvangi Alþingis.

Frú forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og ég legg til að þetta mál hljóti þá meðferð sem það þarf í nefndinni og vonandi afgreiðslu í þessum sal. Verði það fellt verður það fellt. En auðvitað miðað við það sem var sagt fyrir kosningar verður þetta mál samþykkt.