146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[21:54]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já. Hér hefur a.m.k. náðst fram aðskilnaður hv. þingmanna Brynjars Níelssonar og Óla Björns Kárasonar [Hlátur í þingsal.] (ÓBK: Bara stutt.) sem mér finnst nú (Gripið fram í.) — að hluta, það er búið að setja ákveðið hámark á hlutfall samrunans hjá þessum tveimur hv. þingmönnum, sem er nú ákveðinn árangur í sjálfu sér. En hvað varðar þetta mál liggur fyrir að í hruninu sjálfu var gríðarleg óvissa í bankakerfinu. Hv. þingmaður spyr um þá ríkisstjórn sem ég sat í sem menntamálaráðherra. Þessi umræða fór að sjálfsögðu fram, bæði hér á vettvangi þingsins og innan ríkisstjórnar. Ekki voru stigin nein skref, engin marktæk skref, en þó, eins og kemur fram, má segja að þessi skoðun hafi kannski hafist. Til hennar er vitnað í skýrslum frá þessum tíma. Ég get ekkert sagt annað en það að ég held að tímarnir hafi verið þannig að ekki hafi náðst að gera allt. Þetta er eitt af því sem ekki náðist að skoða betur.

Ég lít hins vegar svo á að við höfum tækifæri þegar við erum komin á þann stað að tveir af þremur stóru viðskiptabönkunum eru í eigu ríkisins — einn gæti lent hjá ríkinu ef ekki yrði af sölu eignarhluta. Við höfum það, hvort sem ríkið á bankana eða ekki, en við höfum kannski það tækifæri að vera ekki að selja banka í eigu ríkisins fyrr en við vitum hvert við stefnum í málinu. Ég fagna því sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar segir að þó að hann sé ekki sammála málinu sé hann reiðubúinn að taka þessa umræðu um málið. Ég held að við verðum að horfa til þess að fjárfestingarbankastarfsemi eðlisbreytti bankakerfinu. (Forseti hringir.) Það er ekki mjög langur tími liðinn frá því að bankakerfið gekk í gegnum þá eðlisbreytingu þegar við skoðum söguna. En ég verð víst að koma nánar að þessu í seinna andsvari.